Greiðum einna hæsta tekjuskattinn

Þegar horft er til skattbyrði launafólks er Ísland í þriðja …
Þegar horft er til skattbyrði launafólks er Ísland í þriðja til fjórtánda sæti af 35 aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). mbl.is/Ómar Óskarsson

Hérlendis er tekjuskattur einstaklinga með því hæsta meðal OECD-ríkjanna. Þegar horft er til skattbyrði launafólks er Ísland í þriðja til fjórtánda sæti af 35 aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) en það fer eftir því hvaða fjölskyldugerð og hversu há laun eru valin til samanburðar. Miðað við hin Norðurlöndin mælist Ísland yfirleitt inni í miðjum hópi þeirra.

Þetta kemur fram í ritinu Taxing Wages sem OECD gaf nýverið út en það inniheldur niðurstöður samræmdrar könnunar á skatt­lagn­ingu launa fram til ársins 2016. Fjármála- og efnahagsráðuneytið greinir frá þessu. 

Tryggingagjöld eru hins vegar ekki lögð á launafólk hérlendis og teljast þau lág á Íslandi miðað við OECD-meðaltalið sem var 14,4% í fyrra. Tryggingargjald laungreiðenda hér á landi er 6,85% árið 2017.

Ekki tekið tillit til óbeinna skatta

Útreikningar OECD taka tillit til fjölskylduhaga og endurgreiðslna í formi barnabóta. Þá er litið til svokallaðs skattafleygs en það er mælikvarði á skattbyrði á laun. Hann má skilgreina sem mismuninn á heildar­kostn­aði launagreiðandans við laun og launa­tengd gjöld til hins opinbera annars vegar og út­borg­aðra launa launafólks eftir skatt hins vegar.

Fleygur­inn táknar því þann hluta af heildar­launakostnaðinum sem opinberir aðilar taka til sín. Trygginga­gjald er meðtalið en ekki iðgjöld í líf­eyris­sjóði þar sem þau eru ekki greidd til opin­berra aðila og eru erfiðari í samanburði milli ríkja.

Í Taxing Wages er því fjallað um skatta á laun, með áherslu á að setja fram dæmi um fjöl­skyldu­gerðir sem unnt er að bera saman á milli landa. Hins vegar er hvorki fjallað um aðra beina skatta á heimili og fyrirtæki né óbeina skatta í Taxing Wages.

Skattbyrði fjölskyldu hækkaði lítillega

Í ritinu eru sýnd tvö dæmi um skattafleyg á Norðurlöndum 2016. Annars vegar fyrir einhleypan, barn­lausan einstakling og hins vegar fyrir sam­búðar­fólk með tvö börn þar sem annað er úti­vinnandi. Launin eru í báðum tilvikum meðal­laun.

Á Íslandi hækkaði fleygurinn í tilviki fjöl­skyld­unnar en lækkaði í tilviki ein­hleyp­ings. Fleygurinn er í báðum tilvikum áfram lægri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.

Skattafleygur fjölskyldunnar hækkaði um 0,73% milli áranna 2015 og 2016 en fleygur einstaklingsins lækkaði um 0,21%. 

Þetta þýðir að skattbyrði fjölskyldunnar hækkaði lítillega milli ára en skattbyrði einstaklingsins lækkaði lítillega.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK