Icelandair Group hækkar afkomuspá

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Styrmir Kári

Heildartekjur Icelandair Group jukust um 5% milli ára á fyrsta ársfjórðungi ársins og er afkoman í takt við væntingar. Félagið hefur hækkað afkomuspá ársins upp í 145-155 milljónir Bandaríkjadala vegna batnandi aðstæðna í rekstri.

Heildartekjur félagsins námu 222,4 milljónum Bandaríkjadala en EBITDA var neikvæð um 16,2 milljónir Bandaríkjadala.

Farþegum í millilandaflugi fjölgaði um 14% og er sætanýting góð samkvæmt tilkynningu. Farþegaaukningin var mest á markaðnum yfir N-Atlantshafið eða 40%.

Tekjur félagsins af hótelgistingu nær tvöfölduðust milli ára og námu 10,4 milljónum Bandaríkjadala miðað við 5,4 milljónir Bandaríkjadala á sama tímabili í fyrra.

Þá var eiginfjárhlutfall félagsins 36% í lok mars en handbært fé og skammtímaverðbréf nema 322,8 milljónum Bandaríkjadala og eru 42,3 milljónum umfram vaxtaberandi skuldir.

Gripið til margvíslegra aðgerða

Í tilkynningu er vitnað í Björgólf Jóhannsson, forstjóra Icelandair Group sem segir afkomuna í samræmi við afkomuáætlun sem var kynnt í byrjun febrúar.

 Við höfum gripið til margvíslegra aðgerða í rekstrinum til að ná fram hagræðingu og auknum tekjum. Vinna við þær aðgerðir gengur vel og í samræmi við áætlanir okkar. Við erum þess fullviss að við munum ná því markmiði sem við kynntum; að bæta afkomu félagsins um 30 milljónir Bandaríkjadala á ársgrundvelli, þegar aðgerðirnar verða komnar að fullu til framkvæmda í ársbyrjun 2018,“ er haft eftir Björgólfi.

Segir hann breytinguna á afkomu milli ára skýrast aðallega af lægri meðalverðum í millilandaflugi. Þá hefur gengisþróun verið félaginu óhagstæð. Tekjur af hótelgistingu aukast töluvert milli ára og nýtingin hefur aldrei verið betri á fyrsta ársfjórðungi þrátt fyrir framboðsaukningu.

Sterkt bókunarflæði en krefjandi rekstrarskilyrði

„Bókunarflæði er sterkt en vegna þrýstings á meðalfargjöld gerum við ráð fyrir krefjandi rekstrarskilyrðum í flugrekstri á árinu. Engu að síður gerum við ráð fyrir hóflegum vexti; spáð er áframhaldandi fjölgun ferðamanna til Íslands, nýjum áfangastöðum hefur verið bætt við, horfur í hótelrekstri eru góðar og frakt starfsemi félagsins gengur vel,“ er haft eftir Björgólfi.

Segir hann fjárhagsstöðu félagsins mjög sterka að það sé vel í stakk búið til að takast á við sveiflur og nýta þau tækifæri sem gefast á mörkuðum.

Hlutabréf í Icelandair Group lækkuðu töluvert í verði í byrjun febrúar eftir að félagið sendi afkomuviðvörun þar sem gert var ráð fyrir því að EBITDA þessa árs yrði 140-150 milljónir Bandaríkjadala.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK