Fylgja sauðkindar í andlitið

Fylgjan yrði fryst eftir sauðburð við framleiðslu kremsins.
Fylgjan yrði fryst eftir sauðburð við framleiðslu kremsins. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fimm nemendur Háskólans í Reykjavík hafa hug á því að koma andlitskremi sem inniheldur virk efni sem unnin eru úr fylgju íslensku sauðkindarinnar á markað. Þau hafa verið í sambandi við lífræn sauðfjárbú sem eru tilbúin í samstarf en fylgjunum er í dag fargað.

Hugmyndin sem gengur undir nafninu „Hildir Organics“ er afsprengi áfanga í nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Áfanginn er þvert á allar deildir og er besta hugmyndin verðlaunuð með 400 þúsund krónum sem nota á til að vinna að framkvæmd verkefnisins. Verkefni sem eiga rætur að rekja til sama áfanga hafa orðið að veruleika og má þar til dæmis nefna sjampóið Q sem unnið er úr kúahlandi. Í ár keppa rúmlega sextíu lið um verðlaunin og hefur skólinn þegar valið þrjár áhugaverðustu hugmyndirnar sem gerð voru sérstök kynningarmyndbönd um. Fylgjukremið er ein þeirra.

Langlífar sögur um gagnsemi

Guðrún Edda Þórðardóttir, nemi í heilbrigðisverkfræði og meðlimur hópsins, segir fylgjukrem vera rík af kollageni, andoxunarefnum og hamla öramyndun. Þau vinni gegn öldrun húðarinnar og séu góð gegn rósroða. Hugmyndin er þó ekki ný af nálinni þar sem til eru önnur krem sem einnig innhalda fylgju en þar má t.d. nefna Rebirth frá Ástralíu. Guðrún segir sögur um gagnsemi fylgjunnar langlífar og vísar til þess að margar þekktar Hollywood-stjörnur á borð við KimKardashian hafi ýmist borðað sínar fylgjur eða smurt þeim á andlitið í kremformi.

Varan nefnist Hildir Organics.
Varan nefnist Hildir Organics.

Hópurinn hefur verið í sambandi við Matvælastofnun og dýralækna auk þess að hafa átt í viðræðum við sauðfjárbú. Kremið á að vera lífrænt og því leituðu þau einnig til vottunarstofunnar Túns sem vottar lífrænar afurðir og aðföng. Í dag eru sjö bú lífrænt vottuð og á þeim eru fimm hundruð ær sem gætu skilað um 900 fylgjum á ári. Þá fá að líkum þrjú bú til viðbótar vottun á næsta ári og Guðrún Edda segist hafa heyrt af vilja hjá fleirum.

Hópurinn hafði samband við búin og Guðrún Edda segir þau spennt fyrir hugmyndinni. „Þeim leist mjög vel á hugmyndina þar sem þetta er bara ónýtt auðlind þar sem fylgjunum er fargað,“ segir hún og bætir við að bændurnir þyrftu þá að frysta fylgjurnar til þess að þær yrðu nothæfar í kremin.

Vinningshafi keppninnar verður valinn á föstudaginn en Guðrún Edda segir bjartsýnar áætlanir gera ráð fyrir að kremið gæti komið á markað eftir eitt ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK