Ólaunuð vinna á Sólheimum óeðlileg

Á Sólheimum er rekin ýmis starfsemi, s.s. bakarí, ferðaþjónusta, grænmetisrækt …
Á Sólheimum er rekin ýmis starfsemi, s.s. bakarí, ferðaþjónusta, grænmetisrækt og kaffihús.

Þrír ólaunaðir sjálfboðaliðar starfa hjá Sólheimum í Grímsnesi í dag við garðyrkju og önnur störf. Á heimasíðunni Go Abroad er þá auglýst eftir þremur öðrum til starfa í gróðurhúsi, bakaríi og við ferðamennsku á svæðinu en framkvæmdastjóri segir að auglýsingarnar ætti að vera búið að taka úr birtingu. Lögfræðingur ASÍ segir þetta fullkomlega óeðlilegt.

Á heimasíðunni Go Abroad er auglýst eftir þremur sjálfboðaliðum; einum til starfa í bakaríinu Nærandi, öðrum til starfa í gróðurhúsi Sólheima og starfslýsing þess þriðja felst í þróun sjálfbærrar ferðamennsku á svæðinu. 

Framkvæmdastjóri Sólheima, Guðmundur Ármann Pétursson, segir erlenda sjálfboðaliða hafa skipað mikilvægan sess í starfinu frá stofnun. Auglýsingarnar sem eru í birtingu á vefsíðunni Go Abroad hafi þó átt að taka úr birtingu. Því hafi ekki verið sinnt.

Hann segir nokkrar umsóknir hafa borist í gegnum miðilinn en að enginn hafi verið ráðinn. Telur hann Sólheima ekki hafa neitt erindi á síðum sem þessum. Guðmundur segir sjálfboðaliðana sem nú starfa hjá Sóheimum hafa sótt sjálfir um. 

Fjölbreytt starfsemi fer fram á Sólheimum svo sem rekstur skógræktar- og garðyrkjustöðva sem báðar stunda lífræna ræktun, einnig er þar rekið bakarí, matvinnsla, verslun, listhús, kaffihús og gistiheimili. 

Reyna að sveigja ekki reglurnar

Í dag eru þrír erlendir og ólaunaðir sjálfboðaliðar í vinnu hjá Sólheimum. Þá eru fimm komnir á launaskrá sem áður voru sjálfboðaliðar. Guðmundur segir sjálfboðaliða jafnan vinna hjá Sólheimum yfir tveggja til átta mánaða tímabil. Aðspurður hvort komið hafi til greina að ráða alla inn á launaskrá segir Gunnar að Sólheimar hafi ekki fjármuni til að ráða fleiri starfsmenn.

Markvisst hafi þó verið unnið að því að fækka sjálfboðaliðum. Þess sé reynt að gæta að sjálfboðaliðar gangi ekki inn í launuð störf. „Við höfum reynt eftir bestu getu og vitund að sveigja ekki reglurnar,“ segir Guðmundur.

mbl.is/Hjörtur

Fyrirtæki í rekstri eiga að borga laun

„Skoðun ASÍ og aðildarfélaga er mjög skýr. Fyrirtæki sem eru í efnahagslegri starfsemi eiga að borga sínu starfsfólki laun,“ segir Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ, og bendir á að verið sé að rækta og selja grænmeti í gróðaskyni á Sólheimum auk þess sem bakaríið sé í rekstri og ferðamenn rukkaðir fyrir þjónustu. „Þetta er fullkomlega óeðlilegt og gæti brotið gegn þeirri yfirlýsinu sem ASÍ og SA hafa gert vegna sjálfboðaliða.“

„Þetta er bara undirboð. Ekkert annað. Núna erum við með ekkert atvinnuleysi og mikla eftirspurn eftir fólki. Hvenær á láglaunafólkið að fá launaskriðið sitt ef atvinnurekendur fylla bara í störfin með sjálfboðaliðum,“ segir Halldór og bætir við að með þessu sé brotið gegn starfskjaralögum en samkvæmt þeim er óheimilt að gera ráðningarsamninga er kveða á um verri laun en kjarasamningur segir til um.

Halldór telur að dregið hafi úr ráðningum í ólaunuð störf í kjölfar töluverðrar umræðu en bendir á að erlent fólk sem komi frá löndum þar sem hátt atvinnuleysi er til staðar muni alltaf stökkva á svona tækifæri; að fá fæðu og uppihald ásamt því að hljóta meðmæli á ferilskrána.

„Við áskiljum okkur allan rétt til að taka á þeim undirboðum sem eru til staðar og til þess höfum við ýmis lögbundin úrræði,“ segir Halldór en fyrsta skrefið er jafnan að senda fulltrúa á svæðið til að afla upplýsinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK