Primera kaupir og leigir 20 nýjar vélar

Vélarnar eru lykillinn að vexti Primera á næstu árum en …
Vélarnar eru lykillinn að vexti Primera á næstu árum en félagið mun á næstunni tilkynna um nýja áfangastaði.

Primera Air hefur samið um kaup og leigu á tuttugu nýjustu þotum Boeing og er flugfélagið fyrsti viðskiptavinur flugvélaframleiðandans fyrir þessar vélar. Þær nefnast 737-Max 9 ER (extended range) og hafa lengri flugdrægi en áður hefur þekkst fyrir þessa tegund véla. Samningurinn er gerður á milli Primera Air, Boeing Corporation og Air Lease Corporation. Tilkynnt verður um hann í höfuðstöðvum Boeing í Seattle í dag.

Á síðustu tólf mánuðum hefur Primera unnið með Boeing varðandi lokahönnun og útfærslu vélarinnar. Kaupin hafa verið fjármögnuð og gengið hefur verið frá leigusamningum.

Í tilkynningu segir að um sé að ræða einhverja mestu byltingu í flugrekstri síðustu tuttugu ára og mun þetta vera ein hagkvæmasta vél í rekstri sem framleidd hefur verið. Samkvæmt útreikningum Boeing er beinn rekstrarkostnaður á hvert sæti 40% lægri en á Boeing 757 vélum fyrirtækisins svo dæmi sé tekið.

Vélarnar verða með nýjum hreyflum frá CFM International, LEAP-1B, og með 20% betri eldsneytisnýtingu en núverandi Boeing 737-800 vélar semPrimera er með í rekstri í dag. Þá eru þær lengri og með hærri vigtir en núverandi 737 vélar og Max 8 vélarnar. VélarPrimera verða með 189 sæti, þar af 16 sæti á viðskiptafarrými.

Andri Már Ingólfsson, stjórnarformaður Primera.
Andri Már Ingólfsson, stjórnarformaður Primera. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Lykillinn að vexti félagsins

Vélin getur flogið frá helstu borgum Evrópu til Bandaríkjanna, sem og frá Íslandi til vesturstrandar Bandaríkjanna, Flórida og Karíbahafsins og verður vélin lykillinn að vexti Primera Air á næstu árum.

„Kaup Primera Air á 737 Max 9 ER staðfestir sannarlega trú Primera á miklum möguleikum sem nú opnast meðal annars yfir Atlantshafið,“ er haft eftir Monty Oliver, framkvæmdastjóra alþjóðasölu hjá Boeing, í tilkynningu. 

Primera segir að nýju vélarnar muni veita félaginu samkeppnisforskot á markaðnum.

Primera Air rekur í dag níu Boeing vélar, og flýgur til yfir 70 flugvalla í Evrópu. Félagið er með starfsemi í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Englandi og Íslandi en starfstöðvar þess eru í Danmörku og Lettlandi.

Primera Air velti um 24 milljörðum á árinu 2016 og skilaði 800 milljón króna hagnaði. Tilkynnt verður um nýja áfangastaði Primera Air á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK