Þrjú hlutu styrk úr menningarsjóði

Verðlaunahafarnir þrír. Frá vinstri eru Þórhallur Arnórsson, Hallfríður Ólafsdóttir og …
Verðlaunahafarnir þrír. Frá vinstri eru Þórhallur Arnórsson, Hallfríður Ólafsdóttir og Ugla Huld Hauksdóttir.

Í gær fór fram úthlutun úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals, fyrrum seðlabankastjóra. Tilgangur með sjóðnum er að styðja viðleitni einstaklinga og hópa sem miðar að því að varðveita menningarverðmæti sem núverandi kynslóð hefur fengið í arf. Í þetta sinn var ákveðið að veita styrk úr menningarsjóðnum til þriggja verkefna.

Ugla Huld Hauksdóttir hlaut styrk að fjárhæð 1,5 milljónir króna fyrir sjónvarpsþáttaröð sem byggð er á þjóðsögum Jóns Árnasonar. Í þjóðsögunum er að finna mikinn menningarlegan auð sem hægt er að nýta sem efnivið í gerð sjónvarpsþátta. Efni þjóðsagnanna býður upp á mikla myndræna möguleika og þau sérkennilegu fyrirbæri sem þjóðsögurnar lýsa eru áhugaverður vitnisburður um sálarlíf Íslendinga. Áætlað er að sjónvarpsþættirnir verði alls tíu. Ugla Huld hefur lokið námi í leikstjórn, leikstýrt kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og stuttmyndum og hlotið verðlaun fyrir verk sín.

Þórhallur Arnórsson og Jón Páll Halldórsson sóttu um styrk til verkefnisins Vargöld – önnur bók og hlutu þeir 750 þúsund króna styrk til verkefnisins. Um er að ræða teiknimyndabókaröð sem fjallar um norræna goðafræði, allt frá myndun heimanna níu til ragnaraka. Höfundar heiðra sagnaarf Íslendinga og verður bókin gefin út á íslensku og ensku. Jón Páll mun teikna og lita myndirnar en Þórhallur skrifar söguna og letrar þegar teikningar eru tilbúnar. Fyrirhugað er að gefa út sex bækur í þessari bókaröð en sú fyrsta kom út árið 2016 og var meðal annars tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Hallfríður Ólafsdóttir hlaut 750 þúsund króna styrk fyrir verkefnið Maxímús Músíkús fer á fjöll - um íslenska náttúru, tónlistina og menningararfinn. Fjórar bækur hafa komið út um Maxímús Músíkús og hafa þær verið metsölubækur og unnið til verðlauna. Nýjasta sagan um músíkölsku músina var fyrst unnin á ensku með það að markmiði að kynna Ísland og íslenska menningu. Verkið verður nú endurskrifað á íslensku. Samin var sérstök syrpa úr ellefu íslenskum þjóðlögum og með tveimur samsöngslögum. Einnig hljómar tónlist helstu tónskálda Íslendinga. Verkið er unnið í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Los Angeles Philharmonic Orchestra, FÍH og Forlagið. 

Í úthlutunarnefnd eru Hildur Traustadóttir formaður, varafulltrúi í bankaráði Seðlabanka Íslands, Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK