Lúxushótel á Laugaveginum

Athafnakonan Sigurlaug Sverrisdóttir stýrði uppbyggingunni.
Athafnakonan Sigurlaug Sverrisdóttir stýrði uppbyggingunni. mbl.is/Golli

Nýtt lúxushótel hefur verið opnað í hjarta Reykjavíkur. Það heitir ION City Hotel og er systurhótel ION Adventure Hotel á Nesjavöllum. Nafnið ION vísar í jónaðar agnir sem mynda norðurljós yfir Íslandi.

Sigurlaug Sverrisdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri ION Hotel ehf., sýndi blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins hótelið.

Hótelið heitir ION City Hotel. Húsið verður klætt að utan.
Hótelið heitir ION City Hotel. Húsið verður klætt að utan. mbl.is/Golli

Sigurlaug segir 18 herbergi á hótelinu skiptast í fimm flokka. Þau eru 20-76 fermetrar að stærð og eru stærstu herbergin svítur. Á fjórðu hæð eru svokallaðar junior-svítur og á fimmtu hæð er Panorama-svíta til norðurs og City-svíta til suðurs. Innangengt er úr lyftu í svíturnar á fimmtu hæð. Hér fyrir ofan má sjá stofuna í Panorama-svítunni.

Var áður hostel með bar

Sigurlaug og eiginmaður hennar voru áður hluthafar í Reykjavík Backpackers og Bunk bar en ION Hotels ehf. keyptu eignir og rekstur um mitt ár 2015. Þar voru 100 rúm og bar á jarðhæð. Hostelinu var lokað í september 2015. Hófst þá vinna við að breyta húsinu í 18 herbergja lúxushótel.

Gott útsýni er frá Panorama-svítunni.
Gott útsýni er frá Panorama-svítunni. mbl.is/Golli

Herbergin eru tilbúin en lokafrágangi á veitingastað á jarðhæð er að ljúka. Eldhús og líkamsrækt verða í kjallara. Húsið er því sex hæðir að meðtöldum kjallara og jarðhæð.

Veitingastaðurinn mun heita Sumac og verður Þráinn Freyr Vigfússon, fyrirliði kokkalandsliðsins, þar yfirkokkur. Matreiðslan verður meðal annars undir áhrifum frá Marokkó og Líbanon. Hluti veitingastaðarins verður undir nýju glerþaki í portinu á baklóð hótelsins.

Hannar skartgripi fyrir hótelið

Hildur Hafstein hönnuður hefur hannað armband sérstaklega fyrir gesti ION Hotel. Sigurlaug segir þetta hluta af áherslu hótelsins á hönnun og list. „Til að senda viðskiptavini til hönnuða í nágrenninu komum við með vöruna til viðskiptavina og vekjum þannig áhuga þeirra á íslenskri hönnun. Hildur hefur hannað ION-armband og rennur ágóði af sölu þess til Landverndar. Það er hluti af tengingu hótelsins við náttúruna,“ segir Sigurlaug og bendir á að verslanir með svona handunnar vörur í miðborg Reykjavíkur séu á undanhaldi. Þeirra í stað komi gjarnan veitingarekstur, barir eða verslanir fyrir ferðamenn sem selja vörur með hærri álagningu en þær handgerðu.

Kristín Morthens málaði útvegginn í portinu. Það var endurgert.
Kristín Morthens málaði útvegginn í portinu. Það var endurgert. mbl.is/Golli

Sigurlaug segir að jafnframt verði listrænar ljósmyndir til sýnis í herbergjum. Þá verði listaverk til sýnis á stigagangi hótelsins og í opnu rými. Gestir muni geta keypt listaverkin af listamönnunum.

„List og hönnun fer vel saman og fólk sem gistir á svona hóteli vill gjarnan hafa fallega hluti í kringum sig. Það sækir í hönnun og list,“ segir Sigurlaug um þessar áherslur.

Hátt þjónustustig er á hótelinu og munu gestir meðal annars geta fengið sendan mat frá veitingastaðnum og leigt barþjóna á efstu svíturnar.

Speglar og láréttar línur virðast lengja ganginn.
Speglar og láréttar línur virðast lengja ganginn. mbl.is/Golli

Arkitektar eru þau Erla Dögg Ingjaldsdóttir og Tryggvi Þorsteinsson hjá arkitektastofunni Minarc í Los Angeles. Erla Dögg er innanhúshönnuður en Tryggvi arkitekt.

Erla Dögg og Sigurlaug eru vinkonur til margra ára. Við hönnun klæðningar á útveggjum hótelsins mun Erla Dögg styðjast við mynstur úr lopapeysum sem móðir Sigurlaugar, Helga Vallý Björgvinsdóttir, fv. ritari bæjarstjóra á Seltjarnarnesi og prjónakona, hefur hannað.

Frá svítunni er gengið út á svalir með gufubaði sem …
Frá svítunni er gengið út á svalir með gufubaði sem er aðeins fyrir þessa svítu. mbl.is/Golli

Sérsmíðað fyrir hótelið

Sigurlaug segir allar innréttingar á hótelinu sérsmíðaðar af HBH. Það sé mikið notast við svarta eik og hnotu. Á veitingastað og í stærri herbergjum séu stólar hannaðir af Sveini Kjarval. Hótelið hafi með leyfi afkomenda Sveins látið hækka og dýpka stólinn áður en smíðuð voru 150 eintök af stólnum í Danmörku. Þá eru á sumum herbergjum hægindastólar frá NORR11 og leðursófar frá B&B Italia. Á gólfum eru Linea Design-gólfmottur úr Epal. Þá muni listmunir frá i8 galleríi prýða hótelið. Salerni eru skreytt hraunmolum á dökkum veggjum sem Sigurlaug segir innblásinn af Sprengisandi. Þar loga sérhönnuð LED-ljós sem hanga úr lofti og flökta eins og logi. Jafnframt voru sérstaklega fluttir inn sturtubotnar og vaskar með næfurþunnu postulíni (e. wet style). Sturtubotnar eru því eins og framhald af gólfi. Hljómtæki og sjónvörp eru frá Bang & Olufsen.

Spurð um verð á gistingu segir Sigurlaug að þetta sé ekki dýrasta lúxushótelið í Reykjavík ennþá en þau stefna á að vinna sig upp með tímanum. Verð á nótt verði allt að 170 þúsund fyrir Panorama-svítuna á fimmtu hæð.

Útsýni er frá gufubaðinu á svölunum í nyrðri svítunni á …
Útsýni er frá gufubaðinu á svölunum í nyrðri svítunni á fjórðu hæð. mbl.is/Golli

Hún upplýsir að unnið sé að því að bæta við 20 herbergjum á ION Adventure Hotel á Nesjavöllum. Verða þá alls 64 herbergi á Nesjavöllum. Þá vinni fyrirtækið að opnun nýs Lúxushótels á Laugavegi 55 í gamla Vonarhúsinu, vestan við Kjörgarð. Að auki rekur félagið átta lúxusíbúðir á Laugavegi 151-155, Opal Apartments. Loks sé unnið að þróun gistirýma í bakhúsunum Laugavegi 28 c og d í portinu á bak við ION City Hotel.

Baðherbergið er rúmgott í syðri svítu á fimmtu hæð.
Baðherbergið er rúmgott í syðri svítu á fimmtu hæð. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK