Hægir á launahækkunum

Búast má við líflegum kjaraviðræðum er líður á árið.
Búast má við líflegum kjaraviðræðum er líður á árið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Launavísitala hækkaði um 0,4% milli febrúar og mars og hefur hún nú hækkað um 5% frá því í mars í fyrra. Stöðugt hefur þó hægt á hækkunartaktinum frá aprílmánuði 2016, þegar árshækkunin náði hámarki í 13,4%. Segir í fréttatilkynningu frá Landbankanum að launahækkunartakturinn sé því nú ekki ósvipaður því sem var á árunum 2012 til 2015.

Bent er á að núgildandi kjarasamningar hafi verið framlengdir um eitt ár í febrúar sl. Það hafi falið í sér að laun hækkuðu að jafnaði um 4,5% 1. maí og gildi samningurinn áfram munu laun hækka um 3% 1. maí 2018. „Eins og oft hefur verið nefnt var stefnt að því með Salek-samkomulaginu að hækkun launakostnaðar færi ekki fram úr 32% frá árslokum 2014 fram til ársloka 2018. Hækkun launavísitölu frá árslokum 2014 fram til mars 2017 er orðin 20,8%. Sé áðurnefndum áfangahækkunum bætt við fæst launahækkun upp á 30% þannig að svigrúmið er næstum fullnýtt þegar eitt og hálft ár er eftir af samningnum,“ segir í tilkynningunni.

Bendir Landsbankinn í þessu sambandi á að nokkur fjöldi kjarasamninga sé þegar laus eða muni losna á þessu ári. Meðal þeirra séu 18 stéttarfélög innan Bandalags háskólamanna. Síðasta deila á þeim markaði hafi verið leyst með gerðardómi á árinu 2015. Þá losni samningar kennara bæði í grunn- og framhaldsskólum síðar á þessu ári og eins séu hafnar viðræður um samninga milli Læknafélags Íslands og samninganefndar ríkisins, en samningur Læknafélagsins hafi verið gerður eftir miklar deilur og langt verkfall.

„Nokkuð ljóst er að launastefnan sem byggir á Salek-samkomulaginu er undir í mörgum þessara samninga. Samninganefnd ríkisins er mótaðili í mörgum samninganna og er afstaða fjármálaráðherra sú að ríkið hafi skuldbundið sig til þess að fylgja þeim kostnaðarramma sem markaður var í því samkomulagi. Sá rammi er 32% hækkun launakostnaðar frá árslokum 2014 fram til ársloka 2018, að meðtöldum auknum framlögum til lífeyrissparnaðar. Fjármálaráðherra hefur birt það mat að framhaldsskólakennarar séu þegar komnir yfir þessi mörk og BHM séu mjög nálægt þeim, en hins vegar sé enn um að ræða 5-6% svigrúm fyrir lækna fram til ársloka 2018.

Í viðræðum um framlengingu kjarasamninga í upphafi ársins kom skýrt fram af hálfu ASÍ að þar á bæ væri talið að forsenda, um að laun annarra hækkuðu ekki umfram samninga innan ASÍ, væri brostin. Að sama skapi hafa þau sjónarmið heyrst frá sumum þeirra hópa sem nú ganga til samninga að þau sætti sig ekki við þann launaramma sem Salek-samkomulagið markar. Það má því búast við líflegum viðræðum um kjarasamninga þegar líða tekur á árið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK