Vottar alla raforku til sölufyrirtækja rafmagns með upprunaábyrgðum

Höfuðstöðvar Landsvirkjunnar.
Höfuðstöðvar Landsvirkjunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landsvirkjun hefur gert samkomulag við sölufyrirtæki rafmagns um að öll raforka sem fyrirtækið selur þeim á heildsölumarkaði á Íslandi skuli vera vottuð sem endurnýjanleg með samevrópska upprunaábyrgðakerfinu fyrir árin 2016 og 2017.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Þar segir að með þessu samkomulagi sé stutt við möguleika raforkunotenda á Íslandi, jafnt heimila sem fyrirtækja, á að fá raforkunotkun sína vottaða sem endurnýjanlega samkvæmt alþjóðlegum staðli. Slík vottun auðveldar fyrirtækjum á Íslandi að uppfylla skilyrði fjölda alþjóðlegra umhverfismerkja og getur slík vottun opnað markaðstækifæri fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri markaðssetningu á vörum og þjónustu.

„Þjóðir heims eru sammála um að loftslagsmál séu eitt allra mest aðkallandi mál samtímans, eins og staðfest var á loftslagsfundinum í París í desember 2015. Upprunaábyrgðir eru liður í viðleitni Evrópusambandsins til að berjast gegn loftslagsbreytingum,“ segir í tilkynningunni.

„Upprunaábyrgðir eru sjálfstæð söluvara, óháð afhendingu á raforkunni sjálfri. Upprunaábyrgðakerfið gerir kaupendum raforku í Evrópu kleift að styðja við vinnslu á endurnýjanlegri orku, en notkun hennar hefur í för með sér mun minni losun gróðurhúsalofttegunda en notkun jarðefnaeldsneytis. Kerfinu er ætlað að vera fjárhagslegur hvati fyrir orkufyrirtæki til endurnýjanlegrar orkuvinnslu með það að markmiði að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku í Evrópu og þar með hafa jákvæð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda.“

Í tilkynningunni segir jafnframt að með samstarfi við sölufyrirtæki, sem selja raforku áfram til heimila og almennra fyrirtækja á Íslandi, vilji Landsvirkjun stuðla að því að sem flestir almennir raforkunotendur, heimili og fyrirtæki á Íslandi, getið notið góðs af því að fá alþjóðlega viðurkennda vottun með upprunaábyrgðum á raforkunotkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK