Íslenskt fyrirtæki selt til San Francisco

Af heimasíðu Twigkit.

Bandaríska leitarfyrirtækið Lucidworks hefur fest kaup á fyrirtækinu Twigkit, sem stofnað var af Hirti Stefani Ólafssyni og Bjarka Hólm. Twigkit framleiðir hugbúnað sem gerir mönnum kleift að byggja sérsniðnar lausnir og notendaviðmót til að leita í innri gögnum fyrirtækja og setja fram niðurstöðurnar á skýran og einfaldan hátt.

Á meðal viðskiptavina Twigkit eru mörg af stærstu fyrirtækjum heims, þar með talin Rolls-Royce, Toyota, General Electric, Amgen (móðurfyrirtæki deCODE Genetics), HSBC, Qualcomm, PricewaterhouseCoopers, Financial Times, Vodafone og Thomson Reuters.

Unnið mikið með Lucidworks síðasta árið

Bjarki segir í samtali við mbl.is að aðdragandi sölunnar hafi ekki verið langur en þó hafi hann og Hjörtur alltaf haft möguleikann í huga. „Við erum hugbúnaðarfyrirtæki með sérhæfða tækni og alltaf unnið mikið með öðrum leitarfyrirtækjum eins og Google, Amazon og Hewlett Packard í gegnum tíðina,“ segir Bjarki en Twigkit starfaði mikið með Lucidworks á síðasta ári.

Lucidworks, sem hefur bækistöðvar í San Francisco í Bandaríkjunum, þróar hugbúnaðarlausnir til þess að leita í gögnum af ólíku tagi og uppruna. Með kaupunum á Twigkit mun fyrirtækið geta boðið viðskiptavinum heildarlausnir í gagnaleit og -vinnslu, með því að sameina skýrt notendaviðmót og myndræna framsetningu gagna við öfluga leitarvél og gervigreind.

Bjarki Hólm.
Bjarki Hólm. Aðsend mynd

Passa vel saman tæknilega séð

Twigkit var stofnað árið 2009 og hefur höfuðstöðvar í Cambridge á Englandi og skrifstofur í London og Los Angeles. Twigkit er að meirihluta í eigu stofnenda, til móts við fjárfesta og aðra starfsmenn. Bæði Hjörtur og Bjarki munu starfa hjá Lucidworks í framhaldinu og leiða þróun á leitarlausnum innan fyrirtækisins.

Allir þrettán starfsmenn Twigkit verða áfram á sínum stað þó svo að Lucidworks séu með höfuðstöðvar í San Francisco en Bjarki býst þó við að þeir Hjörtur verði með annan fótinn þar.

„Þetta er mjög spennandi fyrir okkur, Twigkit og Lucidworks passa vel saman tæknilega séð. Þeir eru með með leitarkerfislausn sem sér um að safna saman gögnum og flokka og okkar kerfi gerir það kleift að vinna úr gögnum og setja fram grafískt. Núna erum við fyrirtæki með einstaka heildarlausn.“

Hjörtur Stefán Ólafsson.
Hjörtur Stefán Ólafsson. Aðsend mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK