Costco-sagan endalausa

Úr vöruhúsi Costco í Kauptúni.
Úr vöruhúsi Costco í Kauptúni. mbl.is/Hanna

Það var 13. mars 2014 í Viðskiptablaði Morgunblaðsins sem fregnir bárust af því að smásölurisinn Costco hefði verulegan áhuga á að opna verslun hér á landi. Mörgum þóttu þetta ótrúlegar fréttir en staðreyndin er sú að verslun Costco opnar í Kauptúni á þriðjudaginn, rúmum þremur árum eftir að fyrstu fregnir af hugmyndinni bárust.

Þennan sama 13. mars 2014 gat Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, staðfest að fundað hafi verið með fulltrúum Costco í ráðuneytinu og að verið væri að fara yfir þau atriði sem að þeim snúa. „Við lít­um já­kvæðum aug­um á þetta mál,“ sagði Ragnheiður þá.

Nokkrum mánuðum seinna eða í júní funduðu fulltrúar Costco aftur hér á landi, þá með bæj­ar­yf­ir­völd­um í Garðabæ þar sem rætt var um möguleikann á að opna Costco í Kauptúni 3. Bæjarstjóri Garðabæjar gat staðfest í samtali við Morgunblaðið að fundurinn hefði átt sér stað en sagði að þetta hefði aðeins verið fyrsti fundur og að málið hafi ekki verið tekið form­lega fyr­ir hjá bæj­ar­yf­ir­völd­um.

Fyrst stefnt að opnun 2016

Í júli bárust fregnir af því að Costco væri einnig að skoða möguleikann á að opna verslunina í Korputorgi og að um­hverf­is- og skipu­lags­ráð Reykja­vík­ur hafi tekið jákvætt í fyrirspurnina. Þá sagði Hjálm­ar Sveinsson, formaður ráðsins, að boltinn væri hjá Costco. „Það er í þeirra hönd­um hvort þeir velja Garðabæ eða Reykja­vík,“ sagði Hjálmar.

Það var síðan ekki fyrr en í desember sem það lá fyrir að verslunin yrði í Kauptúni og að hún yrði 14.000 fermetrar að stærð.

Í janúar 2015 var rætt við Gunnar Einarsson, bæjarstjóra Garðabæjar, sem sagði Costco gera ráð fyrir því að verslunin yrði opnuð ári seinna, þ.e. árið 2016.

Kauptún í Garðabæ fyrir framkvæmdir Costco.
Kauptún í Garðabæ fyrir framkvæmdir Costco. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef ekk­ert óvænt kem­ur upp þá reikna þeir með að opna hér versl­un á næsta ári. Mér sýn­ist að skipu­lags­ferlið sem að okk­ur snýr geti tekið fram í júní á þessu ári. Að því loknu munu þeir byggja við það hús sem þeir eru að kaupa og því ætti ekk­ert að verða því til fyr­ir­stöðu að versl­un þeirra í Kaup­túni verði opnuð á fyrri­ hluta næsta árs,“ sagði Gunn­ar í samtali við Morgunblaðið.

Undirrituðu kaupsamninga í júlí 2015

Þær spár áttu ekki eftir að rætast og var það ekki fyrr en í júlí sama ár sem undirritaðir voru samningar um kaup Costco á 12 þúsund fermetra húsnæði í Kauptúni 3. Fasteignin var í eigu fé­lags­ins Sýslu ehf., sem er í eigu bræðranna Sig­urðar Gísla og Jóns Pálma­sona.

Við undirritunina greindi Steve Pappas, fram­kvæmda­stjóri Costco á Bretlandi, frá því að tals­vert úr­val af ís­lensk­um vör­um, einkum ferskvör­um, yrði á boðstól­um í versl­uninni. Þá sagði hann að í byrjun yrðu 160 manns ráðnir en búist væri við því að starfsmenn verði um 250 eftir þrjú ár. Einnig var greint frá því að verslunin byði upp á þjón­ustu á borð við apó­tek, sölu sjón­tækja og sjón­mæl­ingu, dekkja­sölu og dekkja­verk­stæði, bakarí og sæl­kera­versl­un.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, býður Steven Pappas, framkvæmdastjóra Costco …
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, býður Steven Pappas, framkvæmdastjóra Costco yfir Bretlandi, velkominn í Garðabæinn í júlí 2015. mbl.is/Árni Sæberg

Um haustið var beiðni Costco um breytingar á lóð í kringum Kauptún tek­in fyr­ir á fundi skipu­lags­nefnd­ar Garðabæj­ar á næst­unni og var búist við því að þegar samþykkið væri í höfn ætti að vera hægt að hefja framkvæmdir. Í bréfi Costco til bæj­ar­ráðs var m.a. greint frá áform­um Costco um að koma fyr­ir sex­tán eldsneyt­is­dæl­um við versl­un­ina. Þá var óskað eft­ir leyfi til þess að fækka bíla­stæðum frá því sem gert er ráð fyr­ir í deili­skipu­lagi og áttu þau alls að vera 791 tals­ins.

Það var síðan ekki fyrr en í maí í fyrra sem skipu­lags­stofn­un samþykkti nýtt deili­skipu­lag fyr­ir svæðið og þá var jafnframt gefið leyfi fyrir 12 bensíndælum í stað þeirra 16 sem Costco hafði óskað eftir.

Afhjúpuðu teikningar fyrir ári

Í lok maí voru birtar fyrstu teikningar af versluninni sem teiknaðar voru af KRADS & THG arki­tekt­um og var þá gert ráð fyrir því að verslunin yrði opnuð í nóvember. Framkvæmdir hófust hins vegar ekki fyrr en um miðjan ágúst og var þá búið að fresta opnuninni fram til mars 2017.

Í janúar var greint frá því á mbl.is að opnuninni yrði enn og aftur frestað og þá fram í seinni hluta maí og eins og allir vita hefur sú áætlun staðist og verslunin verður opnuð á þriðjudaginn, 23. maí.

Þá sagði Guðmund­ur Ingvi Sig­urðsson, lögmaður Costco á Íslandi, í samtali við mbl.is að um eðli­leg­ar taf­ir væri ræða. „Þetta er stór fram­kvæmd og mikl­ar breyt­ing­ar á hús­næðinu,“ sagði Guðmund­ur og bætti við að verið væri að stækka húsið og bæta aðgengi vöru­bíla á svæðinu ásamt því að stækka fram­hlið húss­ins fyr­ir viðskipta­vini.

Teikningarnar sem voru afhjúpaðar í maí í fyrra.
Teikningarnar sem voru afhjúpaðar í maí í fyrra. Teikn­ing/​KRADS & THG arki­tekt­ar

Höfðu sett 6,2 milljarða í fjárfestingar á Íslandi

Það var síðan fljótlega eftir það sem myndin byrjaði að skýrast. Í febrúar hélt Costco kynningarfund fyrir blaðamenn og fleiri aðila þar sem m.a. var greint frá því að ársaðild í vöruhúsið myndi kosta 4.800 krónur fyrir einstaklinga og 3.800 fyrir fyrirtæki. Þá var einnig greint frá því að þá hefði félagið sett 6,2 millj­arða í fjár­fest­ing­ar á Íslandi. „Það er því hægt að segja að við séum kom­in til að vera,“ sagði Mag­an Chauh­an, fjár­mála­stjóri Costco Who­les­ale UK, á fund­in­um.

Frá kynningarfundi Costco á Nordica-hótelinu í febrúar.
Frá kynningarfundi Costco á Nordica-hótelinu í febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við sama tilefni sagði Steve Pappas, framkvæmdastjóri Costco í Bretlandi, að eftir að hafa kynnt sér íslenska markaðinn hafi hann séð að ís­lensk­ir neyt­end­ur væru vel að sér og kynnu að meta góða vöru og gott verð.

„Þá tók­um við eft­ir því að verðið hér var mjög hátt og við trú­um því að við get­um komið með vör­ur á markaðinn á miklu lægra verði og í meira magni fyr­ir ís­lenska neyt­end­ur,“ sagði Pappas.

Þá sagði hann opn­un­ina á Íslandi á viss­an hátt ákveðna til­raun. „Við erum að dýfa tán­um í vatnið, reyna að hefja starf­semi út frá stærra móður­fé­lagi. Ef það virk­ar á Íslandi erum við mjög já­kvæð fyr­ir öðrum mörkuðum eins og Nor­egi, Svíþjóð og Dan­mörku,“ sagði Papp­as. „Þá gæt­um við jafn­vel opnað höfuðstöðvar Costco á Norður­lönd­um í framtíðinni.“

Steve Pappas, framkvæmdastjóri Costco í Bretlandi.
Steve Pappas, framkvæmdastjóri Costco í Bretlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þúsundir sóttu um aðild á nokkrum vikum

Fljótlega eftir fundinn fóru að berast bæklingar frá Costco inn á heimili landsmanna og þeir hvattir til þess að sækja um aðild. Íslendingar svöruðu kallinu og höfðu þúsund­ir ís­lenskra ein­stak­linga og lít­illa fyr­ir­tækja gerst félagar í byrjun mars samkvæmt Pappas. Þá höfðu jafnframt 800 manns sótt um starf hjá Costco í Kauptúni.

Í kjölfarið fór að bera meira á nýyrðinu „Costco-áhrifin“ í umræðunni. Í Fréttablaðinu í febrúar var sagt frá því að Ölgerðin og Slát­ur­fé­lag Suður­lands (SS) væru nú að semja við er­lenda birgja sína um lægra inn­kaupsverð á inn­flutt­um vör­um gagn­gert vegna komu Costco hingað til lands. Þá sagðist for­stjóri 10-11 ekki útiloka að fyr­ir­tækið kaupi vör­ur af Costco til end­ur­sölu í 35 versl­un­um þeirra.

Framkvæmdir við Costco í apríl.
Framkvæmdir við Costco í apríl. mbl.is/Hjörtur

Taldi menn oftúlka Costco-áhrifin

Hins vegar sagði Jón Björns­son, for­stjóri Fest­ar hf., sem á m.a. Krón­una og ELKO, í samtali við Morgunblaðið í apríl að hann teldi að menn væru að oftúlka áhrif­in af versl­un Costco á markaðinn.

Jón benti á að ís­lenski smá­sölu­markaður­inn velti um 400 millj­örðum króna á ári. Bestu versl­an­ir Costco velti 10 til 12 millj­örðum króna á ári.

„Segj­um að þessi búð í Garðabæ verði ein af bestu versl­un­um Costco, þá myndi hún velta um 2,5% af ís­lenska smá­sölu­markaðnum. Er það ein­hver heimsend­ir? Nei... en eig­um við ekki að leyfa þeim að opna, áður en við för­um á taug­um?“ sagði Jón.

Þegar blaðamaður Morgunblaðsins skoðaði Costco á miðvikudaginn var verið að …
Þegar blaðamaður Morgunblaðsins skoðaði Costco á miðvikudaginn var verið að leggja lokahönd á framkvæmdirnar. mbl.is/Hanna

Besta mál þegar fleirum er veittur aðgangur að bókum

Þá virtust þeir íslensku bóksalar sem mbl.is ræddi við í febrúar um áhrif Costco ekki hafa miklar áhyggjur en íslensk­ar og er­lend­ar bæk­ur eru meðal þess sem verður til sölu í versluninni. Þá verða einnig til sölu tíma­rit og náms­bæk­ur.

Eg­ill Örn Jó­hanns­son, fram­kvæmda­stjóri For­lags­ins, sagði í samtali við mbl.is að verðsamkeppni með bækur væri engin nýlunda hér á landi.

„Menn slást mjög í verðsam­keppn­inni hérna, ekki síst fyr­ir jól­in þegar við sjá­um allt að 50% af­slátt á nýj­um bók­um,“ sagði Egill.

„Ég á ekki von á því að þetta verði grund­vall­ar­breyt­ing fyr­ir bók­sölu á Íslandi en sjálf­ur sem út­gef­andi fagna ég því þegar fyr­ir­tæki sýna bók­um áhuga og vilja selja þær. Það hlýt­ur bara að vera hið besta mál þegar fleir­um er veitt­ur aðgang­ur að bók­um og það á góðu verði.“

Brett Vig­elskas, fram­kvæmda­stjóri Costco hér á landi.
Brett Vig­elskas, fram­kvæmda­stjóri Costco hér á landi. mbl.is/Hanna

Björgunarsveitarmenn verða á vaktinni

Nú eru aðeins nokkrir dagar í opnunina og virðist sem verið sé að leggja lokahönd á framkvæmdirnar sem hófust fyrir níu mánuðum.  Blaðamaður Morgunblaðsins skoðaði sig um í versluninni á miðvikudaginn og ræddi við Brett Vig­elskas, fram­kvæmda­stjóra versl­un­ar­inn­ar hér á landi, sem sagði verslunina í Kauptúni nokkuð stærri en hina hefðbundnu Costco-versl­un og hún yrði am­er­ísk­ari í út­liti og vöru­úr­vali en geng­ur og ger­ist hjá Costco í Evr­ópu. „Okk­ur skilst að Íslend­ing­ar séu svo­lítið hrifn­ir af því sem am­er­ískt er og við vilj­um gjarn­an koma til móts við það,“ sagði Vig­elskas.

Þessir bangsar verða til sölu í Costco.
Þessir bangsar verða til sölu í Costco. mbl.is/Hanna

Þá sagðist Vigelskas búast við því að það verði brjálað að gera á þriðjudaginn þegar verslunin verður opnuð. „Við gerum okkar allra besta við að taka á móti öllum sem vilja koma til okkar og til að allt fari sem best fram verða liðsmenn björgunarsveita á staðnum til að aðstoða starfsfólk við að stjórna mannfjöldanum, ef þörf verður á.“

Hvort björgunarsveitarmennirnir verði nauðsynlegir á þriðjudaginn verður áhugavert að sjá en eitt er víst, Costco er komið til Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK