Með stjörnur í augunum í Costco

Fjölmargir kíktu í Costco í kvöld.
Fjölmargir kíktu í Costco í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenskir áhugamenn um Costco létu sig svo sannarlega ekki vanta þegar verslunin var opnuð fyrir boðsgestum og meðlimum í tvo og hálfan tíma í kvöld. Það voru augljóslega margir spenntir fyrir því að fá loksins að skoða sig um í risastóru vöruhúsi Costco enda eru búnar að vera miklar vangaveltur um vöruúrvalið og verðið síðustu vikur og mánuði.

Reyndar kom það blaðamanni frekar mikið á óvart þegar ágætisumferðarstappa var byrjuð að myndast á Reykjanesbrautinni fljótlega eftir komuna í Garðabæ. Það voru augljóslega fleiri á leiðinni í Costco en nokkrir fjölmiðlamenn.

Klæðnaðurinn kannaður.
Klæðnaðurinn kannaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðburðurinn í kvöld var aðeins kynning og því ekki hægt að versla í búðinni fyrr en á morgun en ef marka má viðbrögð fólks þegar það gekk um verslunina var það sátt með það sem það sá. Fjölmargir voru með símana á lofti, ýmist að taka myndir af verðmerkingunum eða tala í þá. Heyrði blaðamaður nokkra lýsa verðinu fyrir aðilanum hinum megin á línunni. Þá voru einnig margir sem voru komnir til þess að annaðhvort sækja um aðild eða fá tekna mynd af sér á aðildarkortið fræga. 

Vöruúrvalið er vægast sagt fjölbreytt. Þegar gengið er inn í verslunina taka á móti manni stærðarinnar sjónvörp og önnur raftæki eins og tölvur, prentarar, bluetooth-hátalarar og snjallsímar. Þar í grenndinni eru einnig eldhústæki eins og Kitchen Aid-hrærivélar, Ninja-blandarar, George Foreman-grill og fleira. Fljótlega má síðan sjá klæðnaðinn, gallabuxur á bæði kynin, íþróttaföt og barnaföt.

Margir nýttu kvöldið fyrir opnun í það að næla sér …
Margir nýttu kvöldið fyrir opnun í það að næla sér í aðild að Costco. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innst í búðinni er síðan matvaran, ávextir og grænmeti, mjólkurvara, ferskt kjöt og bakarí. Þess má þó geta að blaðamaður var í versluninni í um 40 mínútur en sá örugglega bara helminginn.

Á morgun verður verslunin síðan „open for business“ eins og maður segir á mjög lélegri íslensku. Eflaust munu margir sem voru í Kauptúni í kvöld snúa aftur á morgun eða á næstu dögum og fjárfesta í þeim hlutum sem þeir sáu í kvöld, margir með stjörnur í augunum. Það verður forvitnilegt að sjá hversu margir mæta klukkan 9 í fyrramálið þegar Costco á Íslandi verður formlega opnuð, en þetta er fyrsta Costco-verslunin sem opnuð verður á Norðurlöndunum.

Boðið var upp á veitingar.
Boðið var upp á veitingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK