Þénuðu 5,3 milljarða á Airbnb

Alls voru tæplega 910.000 gistinætur í boði á Airbnb á …
Alls voru tæplega 910.000 gistinætur í boði á Airbnb á síðasta ári í Reykjavík og samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar voru umráðin að meðaltali 45,7%. mbl.is/Ómar Óskarsson

Markaðshlutdeild Airbnb á síðasta ári í Reykjavík nam 14,5% en ferðamenn bókuðu um 416.000 gistinætur í gegnum síðuna í borginni á síðasta ári. Hlutfallið í Reykjavík var töluvert hærra en í öðrum evrópskum borgum eins og Amsterdam þar sem hlutfallið var 11% og 9% í Berlín.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri rannsókn sem hollenski prófessorinn Jeroen A. Oksam gerði fyrir Samtök ferðaþjónustunnar um Airbnb í Reykjavík. Oksam kynnti niðurstöður sínar á fundi SF í dag en hann hefur gert álíka rannsóknir á Amsterdam, Lundúnum, Madrid og Berlín.

Greiddu að meðaltali 12.700 krónur fyrir nóttina

Í niðurstöðum rannsóknar Oskam í Reykjavík kemur fram að tekjur gestgjafa af Airbnb í borginni á síðasta ári hafi náð upp í 47,5 milljónir evra á síðasta ári, eða því sem nemur tæpum 5,3 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Það þýðir að ferðamenn greiddu að meðaltali 114 evrum á nóttina eða því sem nemur um 12.700 krónum.

Alls voru tæplega 910.000 gistinætur í boði á Airbnb á síðasta ári í Reykjavík og samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar var nýtingin að meðaltali 45,7% sem er nokkuð hátt miðað við aðrar borgir sem hafa verið rannsakaðar. Í Amsterdam var hlutfallið 39%, 30,6% í Barcelona og 23,6% í Lundúnum.

Oksam var nokkuð gagnrýninn á starfsemi Airbnb í erindi sínu …
Oksam var nokkuð gagnrýninn á starfsemi Airbnb í erindi sínu í dag. Sagði hann fyrirtækið markaðssetja sig þannig að starfsemin sé jákvæð fyrir efnahag borga og að með Airbnb væru ferðamenn að dreifast frekar um borgir. Sagði Oksam það ekki rétt og að Airbnb væri aðallega í miðborgum borga og sagði sem dæmi að í Amsterdam, þar sem hann býr, sé miðbærinn orðinn „Disney land“ sem íbúar borgarinnar eru hættir að heimsækja. mbl.is/Ófeigur

Miðbær Amsterdam orðinn að Disney-landi

Oksam var nokkuð gagnrýninn á starfsemi Airbnb í erindi sínu í dag. Sagði hann fyrirtækið markaðssetja sig þannig að starfsemin sé jákvæð fyrir efnahag borga og að með Airbnb væru ferðamenn að dreifast frekar um borgir. Sagði Oksam það ekki rétt og að Airbnb væri aðallega í miðborgum borga og sagði sem dæmi að í Amsterdam, þar sem hann býr, sé miðbærinn orðinn „Disney land“ sem íbúar borgarinnar eru hættir að heimsækja. Seinna benti hann á að sama væri að gerast í Reykjavík en þar er bæði mesta framboðið og eftirspurnin eftir  Airbnb-íbúðum í miðbænum. Næstmest er hún í Vesturbænum en minnst í Grafarvogi og Árbæ.

Samkvæmt tölum rannsóknarinnar voru 40,3% af gistinóttunum bókuð í miðbænum og nam leigja á íbúðum og herbergjum í miðbænum 45,4% af heildarveltu Airbnb í Reykjavík.

380.000 ferðamenn nýttu sér Airbnb

Samkvæmt niðurstöðum Oksam voru 5.178 „virkar einingar“ í boði á Airbnb í Reykjavík. Virkar einingar eru þar sem bókanir eru í gangi og gestgjafi svarar skilaboðum og voru 4.256 einingar bókaðar í 416.002 gistinætur. Vöxturinn milli áranna 2015 og 2016 var upp á 90%.

Þá er meðallengd dvalar 3,56 nætur og meðalfjöldi gesta 2,8 til 3,7. Samkvæmt sérstakri formúlu sem nýtt er í rannsókninni þýðir það að 380.000 ferðamenn nýttu sér Airbnb í Reykjavík á síðasta ári en þar sem Airbnb gefur ekki upp tölulegar upplýsingar væri ekki hægt að fá þessar tölur fyrir fyrirtækinu.

Oksam gagnrýndi þá stefnu Airbnb ítrekað í fyrirlestri sínum og sagði það gera borgunum erfitt fyrir að hafa yfirsýn með starfsemi Airbnb og með ferðamannaiðnaðinum í heild sinni.

Samkvæmt tölum rannsóknarinnar voru 40,3% af gistinóttunum bókuð í miðbænum …
Samkvæmt tölum rannsóknarinnar voru 40,3% af gistinóttunum bókuð í miðbænum og nam leiga á íbúðum og herbergjum í miðbænum 45,4% af heildarveltu Airbnb í Reykjavík. mbl.is/Golli

Ættu að fara varlega í að trúa markaðssetningunni

Þá sagði hann opinbera stefnu fyrirtækisins nokkuð öðruvísi en hvernig hún er í raun og veru og að fólk ætti að fara varlega í það að trúa auglýsingum og markaðssetningu Airbnb.  Benti hann á að Airbnb tali oft um þann boðskap samnýtingar en þrátt fyrir það leigja um 85% viðskiptavina Airbnb heil heimili í stað herbergja eða rúma. „Flestir leigja út heil heimili. Það er engin mannleg tenging þarna, einhver lætur þig fá lykil og ekkert meir. Þetta er ekki samnýting,“ sagði Oksam.

Benti hann á að í Reykjavík á síðasta ári hafi 72% bókana á Airbnb verið heil heimili og 27% heil herbergi. Aðeins 1,4% voru skilgreind sem deild herbergi. Í Berlín voru 58% bókana heil heimili, 40% heil herbergi og 1,2 deild herbergi.

Í Reykjavík á síðasta ári voru 11,5% gestgjafa á Airbnb með meira en 10 einingar til leigu. 40,2% voru með eina, 15,9% tvær og 32,4% með 3-10 einingar. Það þýðir þá að þeir sem leigja út fleiri en eina einingu á Airbnb bera ábyrgð á 59% gistinátta og 60% af veltu. Til samanburðar bera þeir sem leigja út fleiri en eina einingu ábyrgð á 44% gistinátta Airbnb í Berlín á síðasta ári og 47% af veltunni.

Oksam ítrekaði að þetta væri ekki samnýting og sagði fólki að fara varlega í samskiptum við Airbnb því þeir nýttu sér „reykjarhulu“ í markaðssetningu sinni.

Ýtir undir skiptingu

Í niðurstöðum sínum sagði Oksam Airbnb ýta undir félagshagfræðilega skiptingu þar sem þeir sem „eiga stór hús græða en þeir sem eiga lítil hús græða minna. Þá græða þeir sem eiga hús í miðbænum og þeir sem búa í útjaðri borgarinnar minna,“ sagði Oksam. Þá sagði hann Airbnb drífa áfram húsnæðismarkaðinn og hafa þau áhrif á miðborgir borga að þær tæmast af íbúum og fyllast af ferðamönnum.

Ítrekaði hann skoðun sína um að Airbnb væri ekki einhver „bylting hugsjónamanna sem snýr að deilingu auðs og eflingu mannlegra samskipta, heldur hreyfing afreglunnar og ótakmarkaðrar markaðsvæðingar“.  

Sagði hann einnig mótsögn í helstu einkunnarorðum Airbnb sem eru „Ekki fara þangað, búðu þar“ og „Stígðu frá fjöldaferðamennsku“. „Á síðasta ári fékk Berlín til sín eina milljón gesta sem trúði ekki á fjöldaferðamennsku,“ bætti Oksam við og vitnaði í tölur yfir Airbnb-gesti í Berlín á síðasta ári.

Þó sagði hann Airbnb ekki helstu orsök þess óhóflega fjölda ferðamanna sem margar borgir glíma við þessi misserin en sagði fyrirtækið þó haldast í hendur við ýmis vandamál í borgum vegna vaxandi ferðamennsku. „En það er skortur á gagnsæi sem er stóri munurinn,“ sagði Oksam og sagði það svipta borgir leiðum til þess að stjórna þeim atriðum sem fylgja ferðamennsku. „Það er ekki lengur hægt að stjórna því hvernig staðir þróast,“ sagði Oksam.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK