„Man ekki eftir svona mikilli hækkun“

Fasteignamat á Húsavík hækkaði um 42,2% milli ára. Ingi segist …
Fasteignamat á Húsavík hækkaði um 42,2% milli ára. Ingi segist ekki muna eftir viðlíka raunhækkun milli ára. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fasteignamat íbúðahúsnæðis á Húsavík hækkar um 42,2% fyrir árið 2018 samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands sem birt var í dag. Ingi Finnsson, sviðstjóri mats- og hagsviðs stofnunarinnar, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða raunhækkun verðs á svæðinu og að svona mikill hækkun sé einstök.

„Ég man ekki eftir svona mikilli hækkun þar sem þetta var ekki í kjölfar endurmats á aðferðafræði, heldur bara raunhækkun á verði,“ segir Ingi og bætir við að þetta hljóti að vera einstakt. Ástæður hækkunarinnar segir hann væntanlega vera gott atvinnuástand á svæðinu. Þar sé ferðaþjónusta að blómstra og þá sé í gangi uppbygging á stóriðju og orku. „Lýsir væntanlega því að fólk er að sækja á staðinn og hugsanlega hafa væntanleg göng til Akureyrar eitthvað að segja.“

Húsavík sker sig úr í hækkun

Hann segir Húsavík skera sig úr þegar kemur að hækkun á landinu, en að almennt sé hækkunin talsverð og jafnari en oft áður. Þannig sé hækkunin á höfuðborgarsvæðinu nánast á öllum svæðum á bilinu 15-20%, en helst er það Arnarnesið og Urriðaholt í Garðabæ sem eru undir þeim tölum.

Í Urriðaholti var hækkunin tæplega 6% og sagði Ingi á kynningu Þjóðskrár fyrir fasteignamatið í morgun að verðáhrif Costco gætti greinilega víðar en bara í búðinni sjálfri og uppskar hlátur í salnum fyrir vikið.

Hækkun fasteignamats á höfuðborgarsvæðinu var hvað mest í Breiðholti þar …
Hækkun fasteignamats á höfuðborgarsvæðinu var hvað mest í Breiðholti þar sem hún var um og yfir 20%. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Jafnari hækkun en áður

„Frá því að við tókum upp nýtt mat fyrir íbúðahúsnæði höfum við ekki séð þessa jöfnu hækkun áður,“ segir Ingi. „Áður höfum við séð svæðin nálægt miðbæ Reykjavíkur hækka meira, en nú er þetta jafn yfir höfuðborgarsvæðið og í rauninni frá Akranesi að Selfossi og út á Reykjanes líka. Svipaðar hækkanir allsstaðar.“ Hann segir að skortur á íbúðum sé væntanlega skýring þess hversu dreifð þessi hækkun sé.

Meðal annarra staða á landsbyggðinni sem hækka ríflega nefnir Ingi Sauðárkrók, Hvammstanga og Blönduós sem séu um og yfir 15%. Hann segir þá hækkun reyndar geta skýrst af fæð samninga, en svo er líka að sjá nokkra hækkun á völdum stöðum á Vestfjörðum og víða á Suðurlandi.

Hækkar fasteignagjöld um 13,8% að öðru óbreyttu

Í fyrra mældist hækkun fasteignamats 7,8% en í ár er hún 13,8%. Að öllu öðru óbreyttu þýðir þetta að fasteignagjöld sveitarfélaga munu hækka um 13,8% nema að sveitarfélögin ákveði að lækka hlutfall skattsins af gjaldstofni.

Ingi segir dreifingu hækkunarinnar líka vera jafnari en áður hafi …
Ingi segir dreifingu hækkunarinnar líka vera jafnari en áður hafi sést og að hún sé svipuð á Akranesi, Árborg og Reykjanesi miðað við Höfuðborgarsvæðið. mbl.is/Sigurður Bogi

Nýja matið 10% undir markaðsverði í dag

Matið sem nú var kynnt tekur gildi um næstu áramót og er á verðlagi febrúar í ár. Aðspurður um hvernig framhaldið varðandi þróun fasteignamats líti út miðað við verðþróun á markaði segir Ingi að frá því í febrúar hafi verið 1-2% verðhækkun á höfuðborgarsvæðinu í hverjum mánuði. „Þannig að við erum kannski að kynna mat sem hækkar mjög mikið, en er samt 10% lægra en verð í dag,“ segir hann og bætir við að ef verðþróunin verði áfram með svipuðu sniði megi gera ráð fyrir álíka hækkun fasteignamats á næsta ári. Hann tekur þó fram að enn eigi eftir að koma í ljós hvaða áhrif til dæmis nýbyggingar sem koma á markað í sumar muni hafa á verð á markaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK