Nýtt borgarhótel í Grímsbæ

THG og hönnunarhúsið GUSTAV sáu um innréttingar.
THG og hönnunarhúsið GUSTAV sáu um innréttingar. mbl.is/Hanna

Nýtt 20 herbergja hótel, Hótel Grímur, verður brátt opnað í Grímsbæ í Reykjavík. Hótelið er á annarri hæð þessarar rótgrónu verslunarmiðstöðvar við Bústaðaveg. Sigurður Smári Gylfason er eigandi og framkvæmdastjóri félagsins BUS hostel sem rekur hótelið.

Hann segir nafn hótelsins dregið af verslunarmiðstöðinni. „Sagan segir að Steingrímur Bjarnason fisksali, sem byggði Grímsbæ, hafi nefnt verslunarmiðstöðina í höfuðið á bresku hafnarborginni Grimsby. Við vildum frekar nefna hótelið eftir Grímsbæ en nota ensk nöfn, á borð við Lagoon, Lava eða Puffin. Hér er Grímur rakari og þetta er Grímsbær. Hótel Grímur hljómar ágætlega.“

Hótel Grímur er á annarri hæð í verslunarmiðstöðinni Grímsbæ.
Hótel Grímur er á annarri hæð í verslunarmiðstöðinni Grímsbæ. mbl.is/Hanna

Höfðað til hagsýnna ferðalanga

Sigurður segir framkvæmdir við hótelið hafa hafist um áramótin. Efsta hæðin var tekin í gegn. Íslenskir aðalverktakar unnu verkið en Reitir eiga húsnæðið. THG og austurríska hönnunarhúsið GUSTAV hönnuðu innréttingar og útlit.

„Þetta er þriggja stjörnu hótel. Við erum ekki með veitingastað og bjóðum ekki upp á kvöldverð. Verð á gistingu er því lægra en á hefðbundum fjögurra stjörnu hótelum í Reykjavík. Ætli maður sé ekki að reyna að höfða til hins hagsýna ferðamanns sem ferðast um á bílaleigubíl. Hér er gott framboð á bílastæðum en líka strætóstöð í báðar áttir. Við erum með góð fjölskylduherbergi sem eru ekki í boði á öllum hótelum,“ segir Sigurður Smári.

Njóta þjónustunnar í Grímsbæ

Hann segir gesti hótelsins jafnframt munu njóta þess að í Grímsbæ sé veitingastaður, bakarí og 10/11-verslun sem er opin allan sólarhinginn. Það henti vel á nóttunni.

Hann væntir góðrar eftirspurnar eftir herbergjum í sumar og segir öll herbergin 20 í sama flokki, nema hvað fjölskylduherbergin séu stærri. Þau eru með aukaherbergi.

„Við finnum að það er mikill áhugi. Það er enn skortur á gistirými í Reykjavík. Ef það tekst að skapa gott andrúmsloft fyrir kúnnann á fyrstu stigum rekstrarins mun það birtast í umsögnum. Ef þetta gengur vel höfum við engar áhyggjur af sumrinu eða framtíðinni.“

Hluti af fjölskylduherbergi.
Hluti af fjölskylduherbergi. mbl.is/Hanna

Byrjaði með bílaleigu

Sigurður Smári hóf rekstur í ferðaþjónustu árið 2009 þegar hann stofnaði bílaleiguna SADcars.

„Við byrjuðum með notaða bíla. Flotinn hefur síðan yngst og nú bjóðum við nýja og nýlega bíla. Fyrir fjórum árum opnaði ég svo BUS hostel í Skógarhlíð 10, sem er 130 manna gististaður af sömu gerð og KEX hostel og Hlemmur Square. Hótel Grímur er rekið í sama félagi og hótelið,“ segir Sigurður Smári.

Hann segir að í kjölfar styrkingar krónunnar hafi farið að bera á nýjum hópum viðskiptavina á bílaleigunni og hostelinu í Skógarhlíð. Ferðamenn séu greinilega að bregðast við því að Ísland sé orðið mun dýrara heim að sækja. Það muni spyrjast út að kaupmáttur ferðamanna sé að minnka og það aftur hafa neikvæð áhrif til lengri tíma litið.

„Ef fram heldur sem horfir um frekari styrkingu krónunnar og skattahækkanir í ferðaþjónustu er það auðvitað mikið áhyggjuefni. Nú er talað um lægð sem er búin að vera í ferðaþjónustu eftir páska. Það var minni nýting á hótelunum í apríl og maí en sömu mánuði í fyrra. Ég heyri að það hafi verið allt að 40% samdráttur í smásölu til ferðamanna milli ára þessa tvo mánuði. Vonandi er þetta smá dýfa og smá kæling fyrir gott sumar.“

Eitt hótelherbergjanna 20.
Eitt hótelherbergjanna 20. mbl.is/Hanna

Erfiðari tíð framundan

Sigurður Smári segir að ef virðisaukaskattur á gistingu hækkar muni hann þurfa að bregðast við 10-11% kostnaðarauka. Svigrúmið fyrir því sé lítið. Það sé meðal annars vegna mikilla launahækkana sem séu komnar fram úr aukinni verðmætasköpun í ferðaþjónustu og raunar þjóðfélaginu öllu.

Of miklar launahækkanir

„Laun hafa hækkað of mikið. Það er á hreinu. Auðvitað höfum við notið 20-30% vaxtar á ári í ferðaþjónustu á síðustu árum og það hefur skapað svigrúm til launahækkana. Vegna gengisstyrkingar lítur dæmið nú öðruvísi út. Þegar ég byrjaði til dæmis með bílaleiguna fengum við 175 krónur fyrir hverja evru. Nú er evran komin í 110 krónur. Samhliða hefur verð í evrum lækkað vegna mikillar og vaxandi samkeppni. Rekstrarumhverfið hefur því breyst mikið. Það eru klárlega erfiðari tímar framundan og það þarf að vanda sig,“ segir Sigurður Smári.

Dagmar Valsdóttir hótelstjóri og Sigurður Smári.
Dagmar Valsdóttir hótelstjóri og Sigurður Smári. mbl.is/Hanna

Nýi hótelstjórinn mun jafnframt stýra hosteli

Sigurður Smári Gylfason, eigandi BUS hostel, segir það hafa gengið vel að finna iðnaðarmenn til að breyta húsnæðinu.

Hans hægri hönd verður Dagmar Valsdóttir. Hún hóf nýverið störf hjá fyrirtækinu og stýrir bæði starfseminni á BUS hosteli í Skógarhlíð og á Hótel Grími.

Sigurður Smári segir að hún sé því í senn hostel- og hótelstjóri.

Dagmar starfaði áður hjá bílaleigunni Avis/Budget. Hún hefur áður starfað á fjölmörgum hótelum bæði hér innanlands og utan.

BUS hostel rúmar 130 gesti og á Hótel Grími er rúm fyrir um 50 gesti ef fjölskylduherbergi eru fullnýtt. Þessir gististaðir geta því tekið á móti þúsundum gesta ár hvert.

Sigurður Smári segir hostelið og hótelið njóta góðs af því að við þau sé nóg af bílastæðum. Þá sé gott aðgengi fyrir hópferðabíla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK