Valið stendur á milli 0,25 eða 0,50 prósentustiga lækkunar

Greiningardeild Arion banka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni lækka vexti um 0,25 prósentustig þegar að nefndin tilkynnir vaxtaákvörðun sína í næstu viku. Spáir deildin því að meginvextir verði 4,5%.

„Líkt og svo oft áður teljum við að vaxtaákvörðunin verði tvísýn, en nú ber svo við að valið stendur ekki á milli 25 punkta lækkunar og óbreyttra vaxta, heldur á milli 25 og 50 punkta lækkunar. Að okkar mati eru litlar líkur á óbreyttum vöxtum, þá einkum og sér í lagi vegna verulegrar gengisstyrkingar á milli funda,“ segir í samantekt deildarinnar. Þá er bent á að gengi krónunnar hefur styrkst um 2,3% frá síðasta fundi nefndarinnar og voru verðbólguhorfur þá samt sem áður góðar.

„Einnig sjáum við fram á að hægja taki á hækkunum húsnæðisverðs á næstunni. Þá má nefna að landsframleiðslutölurnar sem voru birtar í morgun eru í mýkri kantinum en við munum fjalla nánar um þær síðar í dag. Síðast en ekki síst voru að okkar mati skýrar vísbendingar um vaxtalækkun í síðustu fundargerð peningastefnunefndar.“

Meiri samhljóður í nefndinni

Síðasta vaxtaákvörðun nefndarinnar var tilkynnt 17. maí og verður hún næst tilkynnt 14. júní. Í maí voru vextirnir lækkaðir um 0,25 prósentustig og fóru stýrivextir bankans úr 5% niður í 4,75%.

Að mati greiningardeildarinnar mátti greina nokkuð skýrari framsýna leiðsögn í fundargerð peningastefnunnar en áður síðustu misseri. Bent er á að út frá fundargerðinni megi lesa að a.m.k. hluti nefndarinnar sé á þeirri skoðun að lækka megi vexti nokkuð meira án þess að það ógni verðstöðugleika. Þá kusu allir nefndarmenn að lækka vexti um 25 punkta, sem er mun meiri samhljóður en deildin átti von á.

„Sem fyrr, og fögnum við því aukna gegnsæi sem með því skapast, voru talin upp rök með vaxtalækkun og rök með óbreyttum vöxtum. Vissulega er styrking krónunnar rauði þráðurinn bæði í gegnum fundargerðina og yfirlýsingu nefndarinnar en einnig var rætt um aukið aðhald peningastefnunnar sem rök fyrir vaxtalækkun. Miðað við þróunina frá síðustu vaxtaákvörðun hefur taumhaldið aukist og er 10 punktum meira en það var fyrir síðustu vaxtalækkun miðað við 5 ára verðbólguvæntingar sökum þess að verðbólguvæntingar hafa lækkað talsvert síðustu vikur. Þá voru verðbólgutölur í maí nokkuð undir væntingum markaðsaðila og fór árstakturinn úr 1,9% í 1,7%,“ segir í samantekt deildarinnar.

Skiptir máli að vöxtur útlána aukist ekki

Hinsvegar vakti það einna helst athygli deildarinnar að í fundargerðinni mátti sjá vangaveltur nokkurra fundarmanna um framhaldið, og þá sérstaklega um samspil gengisþróunar og húsnæðisverðs. Töldu þeir að líkur á hagstæðu samspili fyrir þjóðarbúskapinn, þ.e. að húsnæðisverðshækkanir stöðvist fyrr en áður var talið án þess að gengishækkunin gangi til baka, séu ekki minni en líkur á óhagstæðari þróun.

„Fram kemur að „...því væri tilefni til að halda áfram varfærinni lækkun vaxta að því tilskildu að vöxtur útlána færist ekki í aukana.““

Vitnað er í síðustu Peningamál þar sem segir að útlánavöxtur til heimila hafi tekið við sér að undanförnu samhliða hækkandi húsnæðisverði, en er þó enn um sinn hóflegur þrátt fyrir mikinn eftirspurnarvöxt í hagkerfinu.

Verðbólga undir markmiði gefur tilefni til lækkunar

Þá hefur krónan styrkst um 2,3% miðað við gengisvísitölu síðan að peningastefnunefnd kom síðast saman. Krónan er einnig um 6% sterkari en maíspá Seðlabankans gerði ráð fyrir að hún myndi vera að jafnaði á árinu og í raun hefur spá bankans um gengi krónunnar næstu tvö ár ræst nú þegar. Bent er á að í verðbólguspá Seðlabankans verði verðbólga undir markmiði fram á fjórða ársfjórðung 2018 en ef gengi krónunnar verður áfram álíka sterkt og nú, eða styrkist enn frekar, má ætla að verðbólgan verði nokkuð minni en Seðlabankinn spáir næstu misseri.

„Slíkt gefur meira tilefni til vaxtalækkunar en áður,“ segir í samantekt deildarinnar en hana má lesa í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK