Spá óbreyttum stýrivöxtum

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnir vaxtaákvörðun sína á miðvikudaginn.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnir vaxtaákvörðun sína á miðvikudaginn. mbl.is/Golli

Hagfræðideild Landsbankans telur að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda vöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sem fram fer á miðvikudaginn. Deildin telur þó að nefndin muni íhuga lækkun upp á 0,25 prósentur og að það sem helst mælir með vaxtalækkun er áframhaldandi lágt verðbólgustig og styrking krónunnar frá síðasta fundi.

„Við teljum þó að styrking krónunnar sé ekki af þeirri stærðargráðu að hún ein og sér nægi til að sannfæra meirihluta nefndarinnar um að lækka stýrivexti frekar að þessu sinni,“ segir í greiningu deildarinnar. „Okkur sýnist líklegra að vöxtum verði haldið óbreyttum og að nefndin kjósi að bíða eftir frekari merkjum sem réttlæta lækkun vaxta, s.s. sterkari kjölfestu verðbólguvæntinga.“

Bent er á að í lok síðasta mánaðar hafi  deildin spáð því að stýrivextir muni lækka um samtals 0,25 prósentustig það sem eftir lifir árs en eftir fundinn á miðvikudaginn mun nefndin funda fjórum sinnum fyrir áramót.

Þá er tekið fram að gengisvísitalan hafi lækkað um 2,6% frá síðasta fundi nefndarinnar. Litið aftur til upphafs ársins 2012 er það tíunda mesta styrking krónunnar milli vaxtaákvarðanafunda, af samtals 43.

„Það er alls ekki sjálfgefið að slík styrking ein og sér dugi til að nefndin ákveði að lækka vexti, eins og dæmin sanna. Skemmst er þar að minnast vaxtaákvörðunar í nóvember á síðasta ári þegar gengisvísitalan lækkaði um 4,4% frá októberfundinum og vaxtaákvörðunar í október en þá lækkaði gengisvísitalan um 3% frá ágústfundinum. Einnig má benda á fimm önnur dæmi á tímabilinu síðan 2012 þar sem vöxtum var haldið óbreyttum þrátt fyrir 2,6-7,4% lækkun á gengisvísitölunni frá síðasta fundi nefndarinnar,“ segir í samantekt hagfræðideildar Landsbankans.

Hins vegar spáir grein­ing­ar­deild Ari­on banka því að pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands muni lækka vexti um 0,25 pró­sentu­stig.

„Líkt og svo oft áður telj­um við að vaxta­ákvörðunin verði tví­sýn, en nú ber svo við að valið stend­ur ekki á milli 25 punkta lækk­un­ar og óbreyttra vaxta, held­ur á milli 25 og 50 punkta lækk­un­ar. Að okk­ar mati eru litl­ar lík­ur á óbreytt­um vöxt­um, þá einkum og sér í lagi vegna veru­legr­ar geng­is­styrk­ing­ar á milli funda,“ segir í samantekt deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK