Skatteftirlit skilaði 6 milljörðum

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðgerðir ríkisskattstjóra vegna skatteftirlits og annarra breytinga á skattframtölum leiddu til 6 milljarða króna hækkunar á skattgreiðslum á árinu 2016.

Um er að ræða nettófjárhæðir, það er hækkanir umfram lækkanir, að frátöldum gjaldbreytingum vegna tryggingagjalds og staðgreiðslu.

Þannig leiddu breytingar á skattframtölum einstaklinga til tæplega 460 milljón króna hækkunar. „Algengustu ástæður fyrir hækkunum á skattframtölum einstaklinga koma til vegna frádrátta í tengslum við dagpeninga, útreiknings vaxtabóta og vantalinna tekna,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.

Yfirferð á öðrum framtölum á árinu 2016, svo sem á atvinnurekstrarframtölum, leiddu til hækkunar um rúmlega 1,6 milljarða króna. Aðspurður segir Skúli að þar sé frádráttur frá tekjum af atvinnurekstri algengasta ástæða hækkunar, en að því frátöldu sé ekkert eitt ákveðið sem leiði til hækkunar frekar en annað. „Þar kemur gjarnan fyrir að eitthvað sé fært í rangan reit á skattframtali sem leiðir til betri útkomu á framtalinu, en er síðan sagt vera byggt á mistökum þegar óskað er eftir útskýringum.“

Þá leiddu hækkanir vegna virðisaukaskatts til hækkunar um tæplega 1,25 milljarða króna.

Stærstur hluti hækkana vegna skattbreytinga er til kominn vegna skatteftirlitseiningar ríkisskattstjóra, en þær hækkanir námu tæpum 2,7 milljörðum króna árið 2016. Skatteftirlit getur tekið til hvers konar könnunar á réttmæti skattskila fyrir og eftir álagningu, en sinnir þó fyrst og fremst eftirliti eftir álagningu. Þar af leiðandi geta hækkanir vegna skatteftirlits tekið til lengra tímabils en fyrrgreindar breytingar á framtölum. „Það er breytilegt eftir árum og því hvaða bransi er skoðaður hvers konar breytingar eru algengastar af hálfu skatteftirlitsins. Ég treysti mér ekki til að draga neitt ákveðið þar út úr,“ segir Skúli.

Meiri sjálfvirkni yfirferðar

Undanfarin ár hefur skatteftirlit mótast af miklum nýjungum og áherslubreytingum. Nær öllum skattframtölum er nú skilað rafrænt en auk þess er mikill meirihluti framtala yfirfarinn vélrænt og afgreiddur sjálfvirkt af tölvukerfi. „Þá ákveður mannshöndin ekkert annað en forsendur yfirferðarinnar, sem er eins fyrir öll framtöl,“ segir Skúli. Í fyrra voru 78,5% skattframtala einstaklinga afgreidd á þennan hátt.

Fyrir álagningu í fyrra kröfðust 17,6% skattframala einstaklinga skoðunar starfsmanna ríkisskattstjóra en þar starfa rúmlega 50 manns við skatteftirlit og skattendurskoðun.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK