Ástæða til að hafa verulegar áhyggjur

Helga segir að ferðaþjónustufyrirtækin séu æ frekar að sjá neyslumynstur ...
Helga segir að ferðaþjónustufyrirtækin séu æ frekar að sjá neyslumynstur ferðamannsins breytast. „Hann er að dvelja skemur, neyta minni afþreyingar, spara við sig í mat og svo framvegis. Síðan eru fyrirtækin líka að sjá fækkun í bókunum fram í tímann og í ferðaheildsölum um allan heim þyngist og þyngist hljóðið,“ segir Helga. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ferðaþjónusta á Íslandi er að tapa samkeppnishæfni og staða atvinnugreinarinnar er að mörgu leyti mjög erfið að sögn Helgu Árnadóttur,  framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Helga segir neyslumynstur ferðamannsins að breytast og að skýr merki séu um að bókunum fram í tímann sé að fækka.

Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans greindi frá því í morgun að samkvæmt tölum Hagstofunnar síðan í síðasta mánuði hafi gistinóttum ferðamanna fjölgað minnst á svæðum sem eru lengst frá höfuðborgarsvæðinu.

Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Golli

Rekstarumhverfið gífurlega erfitt

„Þetta er það sem við erum búin að vera að tala um og hafa áhyggjur af. Rekstarumhverfið er gífurlega erfitt fyrir allar útflutningsatvinnugreinar, með tugprósenta styrkingu krónunnar og tugprósenta launahækkana,“ segir Helga í samtali við mbl.is og bætir við að hér séu líka ósamkeppnishæfir vextir sem bitni á ferðaþjónustu.

„Það er mikilvægt að hafa í huga að ferðaþjónustan sjálf er búin að kosta að stærstum hluta þær fjárfestingar í innviðum sem gerðar hafa verið síðustu ár. Það er gífurlega erfitt fyrir greinina að eiga við þetta óstöðuga rekstrarumhverfi.“

Helga gagnrýnir jafnframt tilhugaðar skattahækkanir stjórnvalda á ferðaþjónustuna. „Það er svakalegt að horfa til þess að stjórnvöld ætli að leggja 118% hækkun á virðisaukaskatti á greinina ef af verður ofan á allt annað. En maður vill nú ekki trúa því að það gerist,“ segir hún. „Ég vil trúa því að ríkisstjórnin setjist niður og greini raunverulega stöðu greinarinnar, horfi til afkomunnar, samkeppnishæfni og meti stöðuna eftir landssvæðum svo eitthvað sé nefnt, eins og reyndar allar þingnefndir lögðu til í vor, áður en farið er í svona umfangsmiklar skattahækkanir.“

Neyslumynstrið að breytast

Helga segir þetta erfiða rekstarumhverfi bitna fyrst og harðast á þeim svæðum sem eru lengst frá höfuðborginni eins og Vestfjörðum og Austurlandi. Þó hefur hún einnig heyrt um að staðan sé erfið fyrir fyrirtæki nær höfuðborginni og jafnvel í borginni sjálfri. „Þau svæði sem eru lengst í burtu eru viðkvæmust en á sama tíma eru þar mikil tækifæri til þess að byggja enn frekar upp heilsársferðaþjónustu,“ segir Helga.

Hún segir að ferðaþjónustufyrirtækin séu æ frekar að sjá neyslumynstur ferðamannsins breytast. „Hann er að dvelja skemur, neyta minni afþreyingar, spara við sig í mat og svo framvegis. Síðan eru fyrirtækin líka að sjá fækkun í bókunum fram í tímann og í ferðaheildsölum um allan heim þyngist og þyngist hljóðið,“ segir Helga.

Hún segist óska þess að stjórnvöld myndu bregðast við á einbeittari hátt. „Það sem er erfiðast og hefur vegið þungt eru þessar miklu sveiflur sem útflutningsatvinnugreinar hafa þurft að búa við bæði hvað varðar gengisþróun og einnig miklar launahækkanir,“ segir Helga. „Það eru sannarlega blikur á lofti og ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir