Breskum ferðamönnum fækkaði um 28%

Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fóru rúmlega 146 þúsund erlendir ferðamenn frá …
Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fóru rúmlega 146 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu í maí síðastliðnum samkvæmt talningum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 22.000 fleiri en í maí á síðasta ári. Fjölgunin nemur 17,8% milli ára. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bretar voru 7,8% erlendra ferðamanna hér á landi í maí og fækkaði þeim talsvert á milli ára eða um 28% samkvæmt tölum Ferðamálastofu sem birtar voru í gær. Hagfræðingur hjá Arion banka segir þetta mikla breytingu en að þó sé of snemmt að draga miklar ályktanir af fækkuninni.

„Þetta hefur legið í loftinu svolítið lengi og nánast verið tímaspursmál hvenær við myndum sjá greinileg áhrif mikillar styrkingar krónunnar, sérstaklega gagnvart pundinu, á fjölda ferðamanna frá Bretlandi,“ segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, í samtali við mbl.is. Hann bendir á að þá hafi breskum ferðamönnum fjölgað hér á landi gríðarlega síðustu ár og því kemur það kannski ekki á óvart að það myndi fara að hægja á fjölguninni. „En þetta er samt frekar mikil breyting í einum mánuði,“ segir hann.

Konráð segir þó of snemmt að fara að draga miklar ályktanir af stöðunni. „En ef þetta heldur svona áfram er það mjög athyglisvert.“

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá Arion banka.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá Arion banka. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ekki víst að það verði mikil tekjuaukning

Flestir ferðamenn hér á landi í maí voru Bandaríkjamenn eða 34,2% en Bretar voru næstflestir. Konráð bendir á að framboðsaukningin á flugi hafi verið miklu meiri til Bandaríkjanna síðustu misseri sem hefur mikil áhrif en til Bretlands og þá hefur krónan ekki styrkst jafnmikið gagnvart Bandaríkjadal. Þó ætti gengisstyrkingin að hafa áhrif á neyslu bandarísku ferðamannanna hér á landi.

Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fóru rúmlega 146 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu í maí síðastliðnum samkvæmt talningum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 22.000 fleiri en í maí á síðasta ári. Fjölgunin nemur 17,8% milli ára.

Konráð segir að þó að ferðamönnum sé enn að fjölga þýði það ekki endilega að það verði mikil aukning í tekjum og að styrking krónunnar sé farin að hafa áhrif á neyslu ferðamanna. „Hver ferðamaður er farinn að neyta talsvert minna í krónum og þá eru uppi sterkar vísbendingar um að þeir séu að dvelja skemur. Þó að hausatalan sé að hækka er ekki víst að það verði það mikil aukning á útflutningstekjum í krónum á þessu ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK