Kalanick hættur hjá Uber

Travis Kalanick.
Travis Kalanick. AFP

Framkvæmdastjóri leigubílaþjónustunnar Uber, Travis Kalanick, hefur látið af störfum hjá fyrirtækinu samkvæmt upplýsingum frá Uber. Fyrirtækið hefur því staðfest frétt New York Times þar að lútandi.

Kalanick hafði þegar farið í snemmbúið sumarleyfi en hann hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarin misseri, ekki síst fyrir að hafa sest í viðskiptaráð Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Samkvæmt frétt NYT fóru fimm af helstu hluthöfum Uber fram á að hann léti af störfum og hefur talsmaður Uber staðfest í tölvupósti við AFP-fréttastofuna að hann sé hættur störfum hjá fyrirtækinu en hann mun áfram sitja í stjórn þess.

AFP

Fjallað var um Uber nýverið í Viðskiptamogganum en þar kom fram að hranalegur stjórnunarstíll Kalanicks þyki hafa mótað sprotafyrirtækið umdeilda. Kalanick missti móður sína nýverið af slysförum og fljótlega eftir það ákvað hann að fara í ótímabundið leyfi frá störfum. Um svipað leyti kom út rannsóknarskýrsla sem gagnrýndi bresti í stjórnun Uber.

Undir stjórn Kalanicks jukust árstekjur fyrirtækisins upp í meira en 7 milljarða dala. En hann leiddi fyrirtækið líka í vandræði, svo sem með notkun „Greyball“-hugbúnaðarins sem Uber notaði til að villa um fyrir stjórnvöldum, eða þegar fyrirtækið komst yfir sjúkraskýrslur konu í Indlandi sem sakaði ökumann Uber um nauðgun.

Önnur skýrsla sem Uber lét gera skoðaði 215 ásakanir um áreitni og einelti innan fyrirtækisins, og leiddi til þess að í síðustu viku voru 20 starfsmenn Uber reknir. Hafa þessi vandamál haldið yfirstjórn Uber mjög upptekinni og hefur þynnst í röðum stjórnendanna á sama tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK