Vanskil húsnæðislána í sögulegu lágmarki

Útlit er fyrir að sjóðurinn eignist aðeins 50-60 fullnustueignir á …
Útlit er fyrir að sjóðurinn eignist aðeins 50-60 fullnustueignir á þessu ári en alls eru í dag 536 eignir í eigu sjóðsins og er söluundirbúningur vegna þeirra langt á veg kominn. Markmið sjóðsins er að ljúka við að selja stóran hluta þessara eigna á almennum markaði fyrir árslok og verður gert átak í sölu þeirra á komandi hausti. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vanskil húsnæðislána eru nú í sögulegu lágmarki og til marks um það hefur Íbúðalánasjóður einungis tekið til sín 23 eignir á uppboði á fyrstu fimm mánuðum ársins. Fara þarf meira en tíu ár aftur í tímann til að finna jafngóða stöðu húseigenda samkvæmt fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

Þar segir að ástandið hafi því gjörbreyst frá því fyrir nokkrum árum, en til samanburðar eignaðist Íbúðalánasjóður 832 eignir á uppboði árið 2010.

Útlit er fyrir að sjóðurinn eignist aðeins 50-60 fullnustueignir á þessu ári en alls eru í dag 536 eignir í eigu sjóðsins og er söluundirbúningur vegna þeirra langt á veg kominn. Markmið sjóðsins er að ljúka við að selja stóran hluta þessara eigna á almennum markaði fyrir árslok og verður gert átak í sölu þeirra á komandi hausti.

Um 60% eigna Íbúðalánasjóðs eru í útleigu en um þriðjungur íbúðanna er leigður fyrri eigendum þeirra. Sjóðnum er heimilt að leigja fólki, sem missir íbúðir sínar í kjölfar vanskila, þær aftur tímabundið til að gefa því ráðrúm til að finna nýtt húsnæði. Tveir þriðju leigjenda sjóðsins hafa verið í þrjú ár eða meira í íbúðunum. Þeim stendur til boða að kaupa eignirnar, rétt eins og öðrum. Gerðarþolar, þ.e.a.s. þeir sem áttu íbúðina áður, geta þó einungis keypt með láni frá Íbúðalánasjóði að því gefnu að þeir séu ekki í vanskilum við sjóðinn í dag.

Samkvæmt fréttatilkynningu munu fasteignasalar annast söluna og verður hagstæðasta tilboði tekið. Allir samningar við leigjendur íbúðanna eru tímabundnir og hafa leigusamningar þeirra að undanförnu verið endurnýjaðir að hámarki til 6 mánaða í senn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK