Skammlífi fallegi peningaseðillinn

Tíu þúsund króna seðillinn þótti álíka fallegur og tvö þúsund …
Tíu þúsund króna seðillinn þótti álíka fallegur og tvö þúsund króna seðillinn samkvæmt könnun Seðlabanka. Kristinn Ingvarsson

Alls óvíst er hvort tíu þúsund króna seðillinn nái fimm ára aldri gangi tillögur eftir um að tíu þúsund og fimm þúsund króna seðlarn­ir verði tekn­ir úr um­ferð. Markmiðið er að sporna við skattsvikum en upphaflega átti útgáfa seðilsins að gera greiðslumiðlun á Íslandi lipr­ari og hag­kvæm­ari. 

Tíu þúsund króna seðillinn var settur í umferð í október 2013 og tók Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrsta eintakinu úr höndum Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Þá sagði Seðlabankinn að til­gang­urinn með út­gáfu seðils­ins væri að gera greiðslumiðlun á Íslandi lipr­ari og hag­kvæm­ari, meðal ann­ars með því að fækka seðlum í um­ferð. Að prenta eitt eintak af seðlinum kostaði 29 krónur árið 2013 sem nemur 31 krónu í dag. 

Hann var fyrsti nýi seðillinn sem var settur í umferð frá árinu 1995 en þá var tvö þúsund króna seðillinn gefinn út. Þar áður var fimm þúsund króna seðillinn árið 1986, þúsund króna seðillinn árið 1984 og 500 króna seðillinn eftir myntbreytinguna árið 1981 ásamt 10, 50 og 100 króna seðlum sem síðar viku fyrir mynt. 

Már Guðmundsson seðlabankastjóri, þegar nýi tíu þúsund króna seðillinn var …
Már Guðmundsson seðlabankastjóri, þegar nýi tíu þúsund króna seðillinn var tekinn í notkun. Kristinn Ingvarsson

 Seðlabankinn hafði lýst yfir að hann vildi gefa út nýjan seðil með góðum fyrirvara. Í apríl 2012 var efnt til sam­keppni um hvaða Íslend­ing­ur ætti, að mati þjóðar­inn­ar, að prýða nýja seðil­inn sem Seðlabank­inn hygðist gefa út og fullyrt var að niður­stöður sam­keppn­inn­ar yrðu af­hent­ar Seðlabanka eft­ir páska. Fjöl­marg­ir les­end­ur mbl.is tóku þátt en þar sem sam­keppn­in var aprílgabb var sama hvern les­end­ur völdu; þeir fengu alltaf þau skila­boð að þeir hefðu valið Davíð Odds­son, fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóra og nú rit­stjóra Morg­un­blaðsins.

Þekktu ekki seðilinn

Í Fjármálainnviðum Seðlabankans sem birtir voru í byrjun mánaðarins kom fram að inn­leiðing 10.000 krónu seðils­ins hefði gengið vel. Í lok maí hefðu 47,1% af verðmæti út­gef­inna seðla verið 10.000 krónu seðlar en þá hafði hlut­ur 5.000 króna seðla minnkað mjög og var kom­inn í 39,8%. Aðeins um 10% af seðlum voru 1.000 krón­ur og 2,6% 500 krónu seðlar.

Þrátt fyrir að 10 þúsund króna seðillinn hefði farið í víðtæka dreifingu komst hann seint á flug. Einu og hálfu ári eftir útgáfu var greint frá því á mbl.is að kona hefði gengið tóm­hent frá Hag­kaup­um í Garðabæ um helg­ina eft­ir að hafa verið meinað að greiða með seðlinum. Starfsmaður­inn á búðar­kass­an­um sagði henni að slík­ur gjald­miðill væri ekki til og því væri ekki hægt að taka við honum. 

Næstfallegastur

Í febrúar 2015 fór fram kosn­ing á Safnanótt meðal þeirra sem mættu í Mynt­safn Seðla­bank­ans og Þjóð­minja­safns um það hvaða pen­inga­seð­ill væri fal­leg­ast­ur. Alls taldi tæp­lega þriðj­ung­ur, eða 32% þátt­tak­enda, að tvö þús­und króna seð­ill­inn væri fal­leg­asti pen­inga­seð­ill­inn og álíka margir, eða 31% þátt­tak­enda töldu að nýi tíu þús­und króna seð­ill­inn væri fal­leg­asti seð­ill­inn.

Seðill­inn bláleiti er til­einkaður Jónasi Hall­gríms­syni, en hann hefur vís­an­ir í störf hans.  Á fram­hlið er mynd af Jónasi, Háa­fjalli og Hraun­dranga. Þar eru einnig ljóðlín­ur úr kvæðinu Ferðalok með rit­hönd Jónas­ar og hæðarlín­ur fjalls­ins Skjald­breiðs mynda grunn­mynst­ur bak- og fram­hliðar.

Á bak­hlið er blý­antsteikn­ing Jónas­ar af fjall­inu Skjald­breið ásamt vetr­ar­ljós­mynd af fönn­um fjalls­ins. Einnig eru þar mynd­ir af lóum og hörpu­skel og ljóðlín­ur með rit­hönd Jónas­ar úr fyrsta er­indi kvæðis­ins Fjallið Skjald­breiður. Krist­ín Þor­kels­dótt­ir hannaði seðil­inn ásamt Stephen Fairbairn en Kristín hef­ur stýrt hönn­un ís­lenskra seðla frá ár­inu 1981. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK