Fleira sem hefur áhrif á krónuna en ferðamenn

Mjög erfitt er að spá fyrir um gengi krónunnar, sérstaklega …
Mjög erfitt er að spá fyrir um gengi krónunnar, sérstaklega til skemmri tíma og veikingin síðustu vikur er ágæt áminning um að fjölmargir aðrir þættir en ferðamenn hafa áhrif á krónuna að sögn Greiningardeildar Arion banka. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í þessum mánuði hefur krónan veikst um 6% gagnvart evru sem er þvert á væntingar margra sem bjuggust við gengisstyrkingu samfara háannatíma í ferðaþjónustu. Mjög erfitt er að spá fyrir um gengi krónunnar, sérstaklega til skemmri tíma og veikingin síðustu vikur er ágæt áminning um að fjölmargir aðrir þættir en ferðamenn hafa áhrif á krónuna.

Þetta kemur fram í greiningu Greiningardeildar Arion banka í dag.

Þar segir að eftir nær samfellda styrkingu frá árinu 2014 hefur gengi krónunnar verið býsna sveiflukennt frá áramótum þó það hafi áfram styrkst, eða um 3,5% miðað við gengisvísitölu. Greiningardeildin bendir á að smár gjaldeyrismarkaður hafi talsverð áhrif á gengið og ýkir sveiflurnar.

„Þó að vænta megi mikils viðskiptaafgangs næstu mánuði vegna ferðamannastraums er þróunin tvísýn. T.d. á eftir að skýrast betur hvaða áhrif sterkt raungengi mun hafa á utanríkisverslun og hvernig lífeyrissjóðir og aðrir innlendir fjárfestar bregðast við auknu frelsi til erlendra fjárfestinga,“ segir í greiningunni.

Flestir spáðu styrkingu í sumar

Bent er á að í vor mynduðust nokkuð sterkar væntingar um að krónan myndi styrkjast í sumar.

„Flestir greiningaraðilar, þar með talið við, voru á því máli. Helsta ástæðan fyrir þeim væntingum er gríðarleg fjölgun ferðamanna og háannatími í ferðaþjónustu. T.a.m. gerir ISAVIA ráð fyrir 744 þúsund erlendum ferðamönnum til landsins í júní-ágúst, eða fleiri en komu til landsins allt árið 2012,“ segir í greiningunni.

Þá er tekið fram að miklum fjölda ferðamanna fylgir gríðarlegt innstreymi af gjaldeyri. Þó er ekki að sjá að gengi krónunnar hafi fylgt árstíðarsveiflu í fjölda ferðamanna, hvorki í ár né síðustu ár.

„Hér spilar að miklu leyti þrennt inn í. Í fyrsta lagi hefur árstíðasveiflan í ferðaþjónustu minnkað mikið síðustu ár, einkum og sér í lagi síðastliðið ár þegar ferðamönnum fjölgaði um meira en helming yfir vetrartímann. Í öðru lagi falla tekjur og gjöld ferðaþjónustu í erlendri mynt oft til á öðrum tímum en þegar ferðamannatíminn er í hámarki. Sem dæmi má nefna að flugfargjöld og pakkaferðir eru oft bókuð og greidd langt fram í tímann. Í þriðja lagi þá teljum við að innflytjendur, útflytjendur og aðrir aðilar á gjaldeyrismarkaði bregðist einfaldlega við þessu innflæði vegna ferðaþjónustunnar. Það getur t.d. birst í því að einhver sem ætlar að selja krónur og kaupa gjaldeyri bíður með það vegna væntinga um gengisstyrkingu – skiljanlega þar sem hann væntir þess að gjaldeyririnn verði ódýrari í framtíðinni. Eftir því sem fleiri hugsa á þennan hátt þurrkað árstíðasveiflur þó sveiflur verði áfram til staðar,“ segir í greiningunni.

Margt gefur haft áhrif

Deildin segir ekki útséð með hvort krónan muni styrkjast eða veikjast í sumar. „Síðustu vikur eru þó góð áminning um að það er alls ekki á vísan að róa og margt getur haft áhrif á gengi krónunnar til skemmri og lengri tíma. Að því sögðu erum við ennþá þeirrar skoðunar að undirliggjandi séu kraftar, fyrst og fremst myndarlegur viðskiptaafgangur, til styrkingar krónunnar í bráð, en þó líklega ekki til lengri tíma litið,“ segir í greiningunni en hana má sjá í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK