Nýju seðlarnir falsaðir á fyrsta mánuði

Nýi 200 króna seðillinn.
Nýi 200 króna seðillinn. Norges bank.

Innan við mánuði eftir að nýi norski 200 króna seðillinn leit dagsins ljós eru fölsuð eintök af honum komin í umferð og hefur lögreglan í Vestfold-fylki, suður af Ósló, þrjá menn í haldi, grunaða um að reyna að beita fölsuðum seðlum í viðskiptum.

Rétt fyrir hádegi í gær barst lögreglu tilkynning frá matvörubúð í Tjøme um að þar vildi viðskiptavinur greiða fyrir vörur með seðlum sem ekki virtust ekta. Áfengisútsalan á staðnum tilkynnti um það sama og eins bárust tilkynningar frá hóteli og fleiri stöðum í Tønsberg þar skammt frá.

Skynjari greinir falska seðla

Ekki leið á löngu uns lögregla hafði þrjá menn í haldi sem reyndust hafa í fórum sínum grunsamlega útlítandi 50 og 200 króna seðla en norska ríkisútvarpið NRK hefur það eftir Knut Erik Ågrav, rannsóknarlögreglumanni hjá lögreglunni í Tønsberg, að hinir handteknu sverji af sér að þeir hafi nokkuð vitað um að seðlarnir væru óekta og kvæðust grandlausir með öllu.

Nú er svo komið að margir norskir kaupmenn hafa tekið í notkun skynjara sem peningaseðlar eru bornir undir og greinir búnaðurinn þá á augabragði hvort einhverja öryggisþætti vanti í seðilinn. Mun tæki þetta hið mesta þarfaþing en Øystein Olsen seðlabankastjóri greindi frá því í viðtölum í lok maí, þegar hinir fyrstu af nýju seðlunum voru settir í umferð, að fjöldi nýrra öryggisatriða væri kominn til sögunnar í nýju seðlunum og ekki nema brot af þeim greinanlegt með mannsauga.

Nýju norsku peningaseðlarnir, sem flestir vísa með myndefni sínu í sjávarútveg landsins í stað stórmenna á borð við listmálarann Edvard Munch sem prýðir gamla 1.000 króna seðilinn, verða settir í umferð í skömmtum, þeir síðustu undir lok ársins 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK