Ríkasti maður Alaska kaupir Keahótel

Hótel Borg er meðal hótela í rekstri Keahótela.
Hótel Borg er meðal hótela í rekstri Keahótela. mbl.is/Golli

Bandaríska fjárfestingar- og fasteignaþróunarfélagið JL Properties, sem er í eigu ríkasta manns Alaska, er að ganga frá kaupum á eignarhaldsfélaginu Keahótelum fyrir um sex milljarða króna. Þetta kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Samkvæmt heimildum Markaðarins er gert ráð fyrir að kaupsamningur verði undirritaður á næstu dögum en Keahótel reka samtals átta hótel víðs vegar um landið, meðal annars Hótel Borg og Apótek Hótel í Reykjavík.

Þá hafa staðið yfir viðræður við íslenska fjárfestingarfélagið Varða Capital um að það hafi einnig aðkomu að viðskiptunum og kaupi um fjórðungshlut í hótelkeðjunni á móti JL Properties.

Eigendur Varða Capital eru Grímur Garðarsson, Jónas Hagan Guðmundsson og Edward Schmidt en félagið kom að fjármögnun lúxushótelsins við Hörpu og er í hópi stærstu hluthafa Kviku banka.

JL Properties er stærsta fasteignaþróunarfélagið í Alaska en auk þess hefur fyrirtækið meðal annars komið að fjárfestingu í hótelverkefnum í Utah og Flórída. Stjórnarformaður og forstjóri JL Properties er Jonathan B. Rubini.

Hluthafar Keahótela settu félagið í söluferli í ársbyrjun en það voru einkum erlendir fjárfestar sem sýndu hótelkeðjunni áhuga meðan á ferlinu stóð, samkvæmt heimildum. Stærsti eigandi hótelkeðjunnar er Horn II, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, með 60 prósenta hlut en hluthafar sjóðsins samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og einkafjárfestum. 

Hér er hægt að lesa frétt Fréttablaðsins í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK