Stöðva niðurfellingu afsláttar Íslandspósts

Íslandspóstur má ekki fella niður magnafsláttinn að svo stöddu.
Íslandspóstur má ekki fella niður magnafsláttinn að svo stöddu. mbl.is/Ernir

Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið bráðabirgðaákvörðun um að heimila ekki Íslandspósti að fella niður svokallaðan viðbótarafslátt vegna reglubundinna viðskipta. Ákvörðunin skiptir fyrirtækin Burðargjöld og Póstmarkaðinn mestu máli, en þau hafa safnað pósti frá stórnotendum og miðlað áfram til Íslandspósts og þannig fengið aukinn magnafslátt til sín.

Íslandspóstur tilkynnti fyrirtækjunum um niðurfellingu afsláttarins með bréfi í apríl. Sagði þar að eftir skoðun og mat á mögulegu kostnaðarhagræði og þar með forsendu fyrir magnafslætti gæfi ekki tilefni til afsláttar og yrðu þeir því felldir niður að fullu í september.

Póst- og fjarskiptastofnun óskaði rökstuðnings frá fyrirtækinu í kjölfar ábendinga frá markaðsaðilum. Taldi stofnunin sig, eftir að hafa fengið svör frá Íslandspósti, ekki geta tekið afstöðu að svo stöddu  um hvort fyrirhuguð breyting væri í samræmi við lög og að frekari greining þyrfti að eiga sér stað. Pósturinn vildi hins vegar ekki fresta breytingunni  og sendi því fyrirtækið Burðargjöld inn beiðni um að Póst- og fjarskiptastofnun kvæði upp bráðabirgðaúrskurð.

Í úrskurði sínum segir stofnunin að með tilliti til þeirra hagsmuna sem undir séu í málinu sé nauðsynlegt að gengið verði úr skugga um með fullnægjandi hætti að breytingarnar standist lög.

Félag atvinnurekenda segir á vefsíðu sinni að Íslandspóstur hafi með ákvörðun sinni ætlað að bola keppinautum sínum af markaði, en rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna er einmitt umræddur magnafsláttur. Veita fyrirtækin viðskiptavinum sínum lægra verð en Íslandspóstur býður en taka einnig til sín hluta afsláttarins.

Gagnrýnir Félag atvinnurekenda breytingahugmyndir Íslandspósts og segja það með ólíkindum að innan við tveimur mánuðum eftir að sátt hafi verið gerð milli Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts sem átti að taka á samkeppnisháttum fyrirtækisins hafi stjórnendur póstsins ætlað að bola keppinautum af markaði. „ Það vekur spurningar um hvort Íslandspóstur telji sig yfirleitt bundinn af sáttinni,“ er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK