Hefja sölu á nýjum EM-bjór

Bjórinn MLV9 frá örbrugghúsinu The Brothers Brewery fer í sölu …
Bjórinn MLV9 frá örbrugghúsinu The Brothers Brewery fer í sölu á föstudag. mynd/The Brothers Brewery

Örbrugghúsið The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum hefur sölu á nýjum EM-bjór á föstudag. Bjórinn ber heitið MLV9 til heiðurs Margréti Láru Viðarsdóttur landsliðskonu. Jóhann Guðmundsson, einn eigenda brugghússins, segir MLV9 vera sterkan og öflugan bjór með ljúfu ávaxtabragði.

Jóhann segir að um leið og ljóst var orðið að stelpurnar myndu taka þátt í EM hafi þeir félagar í The Brothers Brewery ákveðið að brugga bjór þeim til heiðurs, líkt og þeir gerðu fyrir ári þegar karlalandsliðið tók þátt í EM. Í fyrra brugguðu þeir bjórinn Heimi, til heiðurs Heimi Hallgrímssyni. Margrét Lára og Heimir eru bæði frá Vestmannaeyjum líkt og brugghúsið. 

Tilvalið að brugga bjór til heiðurs Margréti Láru 

„Margrét Lára er ekki bara úr Eyjum heldur líka bara algjört „legend“ [goðsögn] og því tilvalið að brugga bjór henni til heiðurs,“ segir Jóhann. Brugghúsið hafði samband við Margréti Láru fyrir nokkrum mánuðum og tók hún vel í verkefnið. Margrét Lára hafði þó á orði að hún drykki reyndar ekki sjálf,“ segir Jóhann og hlær.

Mar­gréti Láru þarf vart að kynna en hún hef­ur verið lykilleikmaður íslenska landsliðsins í fjölda ára. Hún spilaði sinn fyrsta landsliðsleik aðeins 16 ára göm­ul árið 2003. Hún er marka­hæsti leikmaður landsliðsins með 77 mörk og sú næst­leikja­hæsta með 117 landsleiki að baki.

Lýsir karakter knattspyrnukonunnar

Brugghúsið hefur bruggað bjór til heiðurs sjómönnum í kringum sjómannadaginn og var þá rætt við þá einstaklinga og tekið til greina hvernig bjór væri í uppáhaldi hjá þeim. Í ljósi þess að Margrét Lára drekkur ekki sjálf fékk Jóhann því nokkuð frjálsar hendur varðandi gerð MLV9. „Úr varð að ég bý til 9% tvöfaldan IPA (DIPA), sem er stór og mikill bjór,“ segir Jóhann og bætir við að það lýsi karakter Margrétar Láru.

Í gegnum ferilinn hefur Margrét Lára iðulega klæðst treyju númer 9 og strax í byrjun var því lagt upp með að bjórinn bæri heitið MLV9 og væri 9%, segir Jóhann. „Margrét Lára er hörkunagli og þetta er sterkur og öflugur bjór. En þrátt fyrir að vera sterkur hefur bjórinn ljúft og gott suðrænt ávaxtabragð frá humlunum sem eru settir í hann,“ segir Jóhann. 

Jóhann Guðmundsson, einn eigenda The Brothers Brewery.
Jóhann Guðmundsson, einn eigenda The Brothers Brewery. Ljósmynd/úr safni

Hefja sölu á föstudag

MLV9 fer í sölu klukkan 17:00 á föstudag á ölstofu The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum. „Margrét Lára hefur því miður ekki tök á að vera hjá okkur en ég býst við því að einhver úr hennar fjölskyldu verði hér,“ segir Jóhann en hefð hefur skapast fyrir því að sá einstaklingur sem bjórinn er nefndur eftir dæli fyrsta bjórnum.

Þegar bjórinn fer í sölu verða rétt um 10 dagar í fyrsta leik landsliðsins á EM í Hollandi. Bjórinn fer fyrst í sölu aðeins á ölstofunni en Jóhann vonar að eitthvað verði eftir af MLV9 til að setja í sölu í Reykjavík. „Það fer í raun og veru eftir því hversu mikið við seljum hér um helgina,“ segir Jóhann. „Við erum örbrugghús svo við erum ekkert endilega í því að fjöldaframleiða bjór. Við viljum miklu frekar búa til einstaka bjór við og við,“ segir Jóhann.

Heimir fer niður og Margrét Lára upp

Líkt og annar bjór frá brugghúsinu ber MLV9 sitt sérstaka merki. Gunnar Júl listamaður hefur séð um að teikna merkin og á hann heiðurinn af merki MLV9. Nokkur merki prýða svo hús ölstofunnar í Vestmannaeyjum og mun merki MLV9 vera eitt af þeim. „Það er verið að vinna í því núna að Heimir fer niður og Margrét Lára upp,“ segir Jóhann.

Ölstofa The Brothers Brewery var opnuð 16. mars og hafa viðtökur farið fram úr björtustu vonum að sögn Jóhanns. „Við erum alveg í skýjunum með það hvað allir taka okkur vel,“ segir Jóhann. Ölstofan er þannig staður að ölvun ógildir miðann og sjáist ölvun á fólki er boðið upp á frían espresso í stað öls.

Krakkarnir fá popp og fullorðna fólkið bjór

Aðspurður hvort myndast hafi öðruvísi stemning á ölstofunni en hefðbundnum börum bæjarins svarar Jóhann því játandi. „Það er ísbúð hér við hliðina, krakkarnir fara og kaupa sér ís eða koma til okkar og fá popp eða sleikjó og fullorðna fólkið fær sér einn bjór og heldur svo göngunni áfram,“ segir Jóhann.

„Við viljum halda þessu sem huggulegri ölstofu. Hér eru til dæmis engir sjónvarpsskjáir og ekkert kjaftæði,“ segir Jóhann og bætir við að þeir félagar hvetji fólk til að sitja í rólegheitum og spjalla við fólkið á næsta borði. „Það á ekkert að vera neitt feimnismál að fá sér einn bjór,“ segir Jóhann að lokum.

Ölstofa The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum. Eigendurnir og starfsmennirnir frá …
Ölstofa The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum. Eigendurnir og starfsmennirnir frá vinstri: Hlynur Vídó Ólafsson, Hannes Kristinn Eiríksson, Kjartan Vídó Ólafsson og Jóhann Ólafur Guðmundsson. Ljósmynd/Ólafur Einar Lárusson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK