Besta leiðin væri að setja hátekjuþrep á mjög háar tekjur

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mín niðurstaða er sú að einfaldasta leiðin til að taka á þessum greiðslum, sama á hvaða vettvangi, væri að hafa mjög ríflega skattlagningu.“ Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG sem á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í samtali við mbl.is, spurð um álit hennar á bónusgreiðslum  til fjögurra stjórnenda eignarhaldsfélags gamla Landsbankans, LBI, sem nema 350 til 370 milljónum króna.

Katrín segir að bónusgreiðslur hafi verið ræddar nokkrum sinnum í nefndinni og að settar hafa verið reglur um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja en skilanefndir gömlu bankanna falla ekki þar undir.

Katrín hefur lengi haldið því fram að besta leiðin til þess að taka á bónusgreiðslum, sama á hvaða vettvangi þær séu, sé að setja hátekjuþrep á mjög háar tekjur. „Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að  það verði skoðað að fullri alvöru að skattleggja þær tekjur sem eru ekki í neinum takti við það sem gerist og gengur í samfélaginu,“ segir Katrín sem segir ekki pólitískan vilja til þess eins og staðan er núna.

Hún segir að kaupaukakerfið þurfi að ræða með þátttöku atvinnulífsins.

„Atvinnulífið þarf að hafa frumkvæði og taka í því  þátt í því að skapa hér heilbrigt launaumhverfi. Hér er mikið talað um það og mikið gert úr því að laun hafi hækkað mikið en hvaða fordæmi ætlar atvinnulífið sjálft að setja? Hvað ætla þau segja um greiðslur sem þessar?“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK