Lánshæfiseinkunn ríkisins hækkar

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ófeigur

Matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur hækkað lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins á langtímaskuldbindingum í innlendri og erlendri mynd í „A-“ úr „BBB+“. Þá eru horfur fyrir einkunnina sagðar jákvæðar (e. outlook positive).

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

Segir þar að drifkraftar hækkunarinnar séu einkum batnandi ytri staða þjóðarbúsins og skuldalækkun hins opinbera, ásamt sterkum hagvexti.

Vísað er þá í tilkynningu Fitch Ratings en þar segir meðal annars að þættir sem gætu hver um sig eða allir saman leitt til hækkunar á lánshæfiseinkunninni séu:

  • Geta þjóðarbúsins til þess að mæta ytri áföllum eftir afnám fjármagnshafta.
  • Áframhaldandi hagvöxtur án of mikils þjóðhagslegs ójafnvægis.
  • Áframhaldandi lækkun skuldahlutfalla hins opinbera, studd af ábyrgri ríkisfjármálastefnu.

Fitch segist þá ekki búast við framvindu sem væri líkleg til þess að leiða til lækkunar á lánhæfiseinkunn. Samt sem áður gætu eftirfarandi þættir, hver um sig eða allir saman, leitt til neikvæðrar breytingar á lánshæfismati:

  • Vísbendingar um ofhitnun hagkerfisins, til dæmis með víxlhækkun launa og verðlags og verðbólgu umfram markmið, með neikvæðum áhrifum á efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja.
  • Veikari ásetningur (e. weakened commitment) um að efla stöðu ríkisfjármála til meðallangs tíma.
  • Mikil útflæði fjármagns sem leiða myndi til ytra ójafnvægis og þrýstings á gengi krónunnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK