Miða sig alltaf við karlana

Erla bendir á að oft sé sagt að konur eigi …
Erla bendir á að oft sé sagt að konur eigi bara að breytast, sýna meiri hörku og vera hraðari og ýtnari en óhræddar við að hreykja sér að eigin afrekum. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Karlaklíka stendur í vegi kvenkyns millistjórnenda þegar það kemur að myndun eðlilegs tengslanets og konurnar eiga það til að álasa sér fyrir að skorta karllæga eiginleika. Störf yfirstjórnenda eru sköpuð af karlmönnum fyrir karlmenn þar sem hraðar ákvarðanatökur og að fórna sér fyrir starfið er í fyrirrúmi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar þeirra Unnar Dóru Einarsdóttur, dr. Erlu S. Kristjánsdóttur og Þóru H. Christiansen um upplifanir kvenmillistjórnenda af stöðu sinni, möguleikum og hindrunum í starfi.

Grein um rannsóknina var birt í Tímariti um viðskipta- og efnahagsmál sem gefið er út af viðskipta- og hagfræðideildum Háskóla Íslands, viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík og Seðlabanka Íslands.

Jafnt hlutfall millistjórnenda hjá 30% fyrirtækja

Í samtali við mbl.is segir Erla að hugmyndin að rannsókninni hafi upphaflega komið frá meistararitgerð við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. „Við ákváðum í kjölfarið að vinna þessa hugmynd áfram, bættum heilmiklu við og komumst að áhugaverðum niðurstöðum,“ segir Erla í samtali við mbl.is.

Erla bendir á að á Íslandi er hlutfall kvenna í efsta stjórnunarlagi fyrirtækja 21,9% samkvæmt tölum frá 2015. Ef skoðuð eru stærstu fyrirtæki landsins eru konur aðeins 9,2% þeirra sem gegna stöðu æðstu stjórnenda. En ef litið er til hlutfalls kvenna í stöðu milli stjórnenda betri, í 30% fyrirtækja er jafnt hlutfall kvenna og karla í stöðu millistjórnenda en í 41% fyrirtækja er meirihluti millistjórnenda karlar.

„Þetta er náttúrulega forvitnilegt því að við á Íslandi komum svo vel út í alþjóðlegum samanburði og það hefur ítrekað verið sagt að það sé best að vera kona á Íslandi því hér ríkir svo mikill jöfnuður. Samt eru hlutföll kynjanna ekki jöfn þó að við séum komin svona langt,“ segir Erla. 

Dulinn ójöfnuður á vinnustaðnum

Í rannsókninni voru tekin viðtöl við ellefu kvenkyns millistjórnendur í stórum fyrirtækjum. Að sögn Erlu voru þær frekar ungar, milli þrítugs og fertugs og vel menntaðar.

„Það sem kom helst í ljós er að þessar konur finna fyrir mörgum hindrunum. Það eru komnar sprungur í glerþakið en það virðist vera erfitt að komast í gengum þær,“ segir Erla. Hún segir ákveðna fordóma ríkja gagnvart konum í atvinnulífinu og að dæmigerð einkenni góðs stjórnanda séu oft þau sömu og einkenna karlmenn. „Það er þessi áhættusækni, keppnisskap, hraði, þeir taka ákvarðanir hratt og eru duglegir að hrósa sér. Þetta er mælistikan og konan er ekki nógu góður stjórnandi ef hún hefur ekki þessi einkenni. Konurnar finna fyrir pressu á að vera eins og karlar og það kom skýrt fram í viðtölunum sem við tókum við konurnar.“

Erla segir að þó að það sé búið að ryðja mörgum hindrunum úr vegi finna konur enn fyrir þessum dulda ójöfnuði á vinnustaðnum. „Konan á alltaf að vera til staðar, sjá um börn og heimili en líka vera til staðar á vinnustað. Menningin er enn þá svolítið karllæg. Okkar niðurstöður benda líka til þess að konur fái minna lof fyrir frammistöðu og að meiri kröfur séu á henni,“ segir Erla og bætir við að í viðtölunum hafi komið skýrt fram að konunum finnist þær ekki njóta sömu virðingar og karlar. Þá hafa þær ekki endilega sama tengslanet og karlar og tala um „karlaklíku“ í því samhengi.

„Æ við erum svo hægar“

„Konurnar töluðu líka um ójöfn tækifæri innan fyrirtækjanna og að það sé erfiðara að vinna sig upp. Konur upplifa mikla ábyrgð, eru metnaðarfullar, en taka ekki jafnhratt ákvarðanir. Þær taka sér meiri tíma í mikilvægar ákvarðanir og virkja frekar fólkið sitt en að taka þær sjálfar. En í viðtölunum mátti sjá konurnar dást að þessum dugnaði karla að taka ákvarðanir hratt og miðuðu sig við þær. Þær sögðu hluti eins og „Æ við erum svo hægar“ og það skapar óöryggi,“ segir Erla. „Þær miða sig alltaf við karlana.“

Hún bendir á að oft sé sagt að konur eigi bara að breytast, sýna meiri hörku og vera hraðari og ýtnari en óhræddar við að hreykja sér að eigin afrekum. „Það er þannig að konurnar eigi bara að breytast og til þess að gerast það þurfa þær að aðlagast að staðalímynd stjórnanda sem er kall. En af hverju þurfa konurnar alltaf að aðlagast að þessu formi?“

Staðalímyndir þurfa að breytast

Að sögn Erlu þurfa staðalímyndir stjórnenda að breytast og ná til einkenna karla og kvenna. „Ef það á að gera eitthvað í þessum duldu fordómum þurfa þessar staðalímyndir að breytast. Það þarf meira jafnvægi,“ segir Erla en bætir við að mikilvægt sé að muna að ekki eru allar konur eða karlar eins. „En þær konur sem hafa náð á toppinn fara oft eftir staðalímyndum karlstjórnenda, fórna sér í starfið og verða eins og karlar. Margar sem halda kvenlegu eðli, eru klárar og efnilegar, eru enn í stöðu millistjórnenda og geta ekki hugsað sér að fara ofar,“ segir Erla.

Hún segir mikilvægt að jafna stöðuna á heimilunum og opna tengslanetið fyrir konum og að staðalímynd yfirstjórnandans þurfi að ná til einkenna kvenna jafnt sem karla. „Þangað til breytist ekkert,“ segir Erla. Hún segir aukna fræðslu lykilinn að því að breyta þessum staðalímyndum. „En þetta er djúpt innbyggt í menningunni og þessar breytingar munu taka tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK