Stríðið hefur kostað þjóðina 23.700 milljarða

Frá Sýrlandi. Alþjóðabankinn telur að stríðið hafi eyðilagt 27% af …
Frá Sýrlandi. Alþjóðabankinn telur að stríðið hafi eyðilagt 27% af öllu húsnæði í landinu og um helming heilbrigðis- og kennslumannvirkja. Alþjóðabankinn segir jafnframt að um 538.000 störf hafi verið lögð niður í landinu frá árinu 2010 til 2015. AFP

Stríðið í Sýrlandi hefur kostað efnahag landsins 226 milljarða Bandaríkjadala eða því sem nemur tæpum 23.700 milljörðum íslenskra króna að mati Alþjóðabankans. Rúmlega 320.000 manns hafa látið lífið í stríðinu síðan það hófst í mars 2011. Þá hefur meira en hálf þjóðin þurft að leggjast á flótta vegna átakanna.

„Stríðið í Sýrlandi er að rífa í sundur félagslega og efnahagslega uppbyggingu í landinu,“ var haft eftir aðstoðarforstjóra Alþjóðabankans í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, Hafez Ghanem, í tilkynningu. „Fjöldi látinna er skelfilegur en stríðið er líka að eyðileggja þær stofnanir og þau kerfi sem samfélög þurfa til þess að starfa. Það verður mikil áskorun að endurbyggja þær, meiri áskorun en að endurbyggja innviði og áskorunin verður meiri eftir því sem stríðið heldur áfram.“

Að mati Alþjóðabankans hefur verg landsframleiðsla landsins minnkað um 226 milljarða Bandaríkjadala síðan stríðið hófst sem er fjórföld landframleiðsla Sýrlands ársins 2010.

Þá er talið að stríðið hafi eyðilagt 27% af öllu húsnæði í landinu og um helming heilbrigðis- og kennslumannvirkja. Alþjóðabankinn segir jafnframt að um 538.000 störf hafi verið lögð niður í landinu frá árinu 2010 til 2015. Þá telur hann að rúmlega þrír af hverjum fjórum vinnufærum Sýrlendingum, eða um níu milljónir manna, séu hvorki að vinna né í einhvers konar skóla eða þjálfun.

Bankinn telur að ef stríðinu lyki á þessu ári myndi verg landframleiðsla ná um 41% af því sem hún var í fyrir stríð á minna en fjórum árum. Sú tala lækkar þó með hverju árinu sem stríðið heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK