Air India hættir að selja kjöt um borð í innanlandsflugi

Farþegaþota Air India. Mynd úr safni.
Farþegaþota Air India. Mynd úr safni.

Flugfélagið Air India býður nú aðeins upp á grænmetisrétti á almennu farrými í ferðum félagsins innan Indlands. Ákvörðunin hefur verið gagnrýnd en flugfélagið segir þetta gert í ljósi sparnaðar. Ríkisflugfélagið er skuldum hlaðið og hafa indversk stjórnvöld íhugað að einkavæða það.

Gagnrýnendur grænmetisfæðisins líta svo á að með því sé verið að mismuna fólki og hafi lítil áhrif á rekstarkostnað félagsins. Forstjóri Air India hefur þó komið ákvörðuninni til varnar og sagst ekki skilja hvert vandamálið sé.

Mataræði getur verið mjög pólítiskt í Indlandi samkvæmt frétt BBC þar sem margir hindúar eru grænmetisætur en múslimar borða oft kjöt. Í dag mun hæstiréttur á Indlandi til dæmis skoða ákvörðun yfirvalda um að banna sölu á kálfakjöti vegna trúarlegra ástæðna.

Indverski kokkurinn Madhu Menon gagnrýndi ákvörðun Air India á Twitter og sagði pólitík augljóslega hafa haft áhrif. „Næst mun áhöfnin bara tala hindí. Síðan hlustum við á þjóðsönginn fyrir flugtak,“ skrifaði Menon.

Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Air India, Ashwani Lohani, varði ákvörðunina á Facebook og sagði hana „draga úr úrgangi, spara kostnað, bæta þjónustu og takmarka hættuna á því að réttum sé ruglað saman.“

Air India skuldar um átta milljarða Bandaríkjadala eða því sem nemur tæpum 840 milljörðum íslenskra króna.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK