Birta upplýsingar um heildarveðsetningu

Kauphöllin.
Kauphöllin. mbl.is/Þórður

Nasdaq hefur tilkynnt að frá og með deginum í dag muni Kauphöllin í samstarfi við Nasdaq verðbréfamiðstöð birta opinberlega upplýsingar um heildarveðsetningu íslenska hlutabréfamarkaðarins. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Nasdaq, en þar segir að upplýsingarnar verði birtar mánaðarlega með markaðstilkynningu. Nánar tiltekið sé um að ræða upplýsingar um meðalveðsetningu allra félaga á hlutabréfamörkuðum Kauphallarinnar, reiknað út frá hlutfallslegu vægi hvers og eins félags.

Byggt er á gögnum um veðsettar eignir í kerfum Nasdaq verðbréfamiðstöðvar. Gögnin innihalda upplýsingar um hluti sem teknir hafa verið til viðskipta á aðalmarkaði og First North Iceland.

Upplýsingar um veðsetningu geta veitt ákveðnar vísbendingar um umfang skuldsetningar á hlutabréfamarkaði, þ.e. hversu mikið fjárfestar hafa fengið að láni til að kaupa í skráðum félögum að því er fram kemur í tilkynningunni. Hækkandi skuldsetning geti verið til marks um aukna bjartsýni á meðal fjárfesta og kunni hófleg skuldsetning því að vera túlkuð sem jákvæður fyrirboði.

Of mikil skuldsetning geti aftur á móti verið litin neikvæðum augum af margvíslegum ástæðum. Til að mynda hafi margir talið að aukin skuldsetning geti orsakað hækkun eignaverðs umfram raunvirði til skemmri tíma litið (bólumyndun á markaði). Að sama skapi geti mikil skuldsetning gert það að verkum að áhrif neikvæðra atburða á hlutabréfaverð verði harkalegri en ella.

„Með birtingu upplýsinga um veðsetningu á íslenska hlutabréfamarkaðnum er stigið enn eitt skrefið í átt að auknu gagnsæi á markaði, sem er einn af hornsteinum hans,“ er haft eftir Baldri Thorlacius, forstöðumanni eftirlitssviðs Nasdaq Iceland í tilkynningunni. „Þann 1. júlí tók einnig gildi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um skortsölu,  sem felur í sér að nokkuð ítarlegar upplýsingar verða birtar opinberlega um skortstöður niður á einstaka hlutabréf. Með birtingu upplýsinga annars vegar um veðsetningu hlutabréfamarkaðarins og hins vegar um skortstöður er veitt betri innsýn inn í þau öfl sem geta mögulega haft áhrif á framboð og eftirspurn eftir hlutabréfum. Það geta vonandi flestir verið sammála að um sé að ræða gagnlega viðbót við þá flóru upplýsinga sem fjárfestar höfðu áður aðgang að.“

Gögn Nasdaq verðbréfamiðstöðvar sýna einungis beina veðsetningu þar sem veð í verðbréfi hefur verið skráð á reikning í kerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar og nýtur þannig réttarverndar skv. ákvæðum laga nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa. Gögnin taka því hvorki tillit til þess að lánveitandi gæti haft veð í öllum eigum lántakanda, þar á meðal hlutabréfum, né innihalda þau upplýsingar um óbeinar veðtökur með gerð framvirkra samninga eða annarra afleiðna. Loks er rétt að taka fram að gögnin veita engar vísbendingar um veðþekju.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK