Ein lengsta uppsveifla hingað til

Lendingin verður mjúk ef marka má spá greiningardeildar Íslandsbanka.
Lendingin verður mjúk ef marka má spá greiningardeildar Íslandsbanka. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Núverandi uppsveifla stefnir í að verða ein sú lengsta í seinni tíma hagsögu Íslands. Útlit er fyrir myndarlegan hagvöxt á þessu ári en í kjölfarið mun draga jafnt og þétt úr vextinum. Þetta kemur fram í uppfærðri þjóðhagsspá sem greiningardeild Íslandsbanka gaf út í dag. 

Hagvöxtur í fyrra reyndist 7,2% samkvæmt tölum Hagstofu, og hefur hann ekki verið hraðari frá árinu 2007. Í þjóðhagsspá Íslandsbanka er metið að uppsveiflan hafi náð hámarki og sígi nú á seinni hluta hagsveiflunnar. Spáð er 5,3% hagvexti í ár, 3,0% vexti á næsta ári og 2,3% hagvexti árið 2019.

Þá segir að vöxturinn í ár verði borinn uppi af þjónustuútflutningi, fjárfestingu heimila og fyrirtækja, svo og einkaneyslu. Hægari vöxtur á komandi árum skýrist af litlum vexti fjárfestingar og hægari vexti einkaneyslu og útflutnings. Leiddar eru líkur að því að vaxtarskeiðinu ljúki með tiltölulega mjúkri lendingu vegna þess að færri merki eru um ójafnvægi í þjóðarbúskapnum en í síðustu uppsveiflum.

Samkvæmt líkönum sem greiningardeildin notast við er búist við að verðbólgan fari yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans í kringum næstu áramót og verði að jafnaði 3,0% á næsta ári. Ástæðuna megi rekja til þess að áhrif hraðrar styrkingar krónu síðustu misseri fjari út. Vaxandi verðbólga gæti skapað svigrúm fyrir lækkun stýrivaxta, þó heldur á seinni hluta spátímabilsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK