Ekki vitað hvað kemur í glerhýsið

Rýmin, sem eru alls 1168 fermetrar að stærð, eru öll …
Rýmin, sem eru alls 1168 fermetrar að stærð, eru öll hönnuð með verslunarstarfsemi í huga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki liggur fyrir hvað verður í húsunum við Laugaveg 4-6 en nú styttist óðum í að þau verði tilbúin eftir miklar framkvæmdir. Um er að ræða fjögur rými og samkvæmt upplýsingum frá fasteignasala eru þau öll enn í boði, annaðhvort til sölu eða leigu. Um er að ræða tvö gömul hús sem sett hafa verið í upprunalega mynd og nýbyggingu þar á milli.

Í samtali við mbl.is segir Svan Gunnar Guðlaugsson hjá fasteignasölunni Mikluborg að rýmin séu enn til sölu eða leigu hjá fasteignasölunni. Nokkur tilboð hafi borist en þeim ýmist hafnað eða ekki uppfyllt ákveðin skilyrði. Rýmin, sem eru alls 1.168 fermetrar að stærð, eru öll hönnuð með verslunarstarfsemi í huga.

Um er að ræða fjögur rými eins og fyrr segir. Í auglýsingu á fasteignavef mbl.is kemur fram að húsið á Laugavegi 4 sé tvílyft timburhús sem er 150 fermetrar að stærð og fært í upphaflega mynd. Laugavegur 4-6 er hins vegar steypt nýbygging, tvær hæðir og kjallari. Alls er rýmið 875,5 fermetrar, með áberandi verslunarglugga, góða lofthæð og rúllustiga niður í kjallara og upp. Síðan er lyfta á milli hæða. Laugavegur 6 er timburhús, hæð og ris, alls 93,6 fermetrar að stærð og hefur eignin verið færð í upphaflega mynd. Síðan er 48,6 fermetra rými við Skólavörðustíg 1a. Rýmið tengist nýbyggingunni á Laugavegi 4-6 en inngangur er frá Skólavörðustíg.

Í auglýsingunni kemur jafnframt fram að rýmin tengist öll á einn eða annan hátt og því sé auðvelt að nýta þau öll fyrir einn aðila.

Svan segir nokkrar fyrirspurnir hafa borist Mikluborg upp á síðkastið varðandi húsnæðið en mögulega komi fleiri nú þegar styttist í að húsnæðið verði tilbúið og útlit þess liggur fyrir. 

Húsið er í eigu eignarhaldsfélagsins Laugastígs ehf. en það er teiknað af PK arki­tekt­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK