Samruninn hefði hindrað virka samkeppni

Samkeppniseftirlitið hefur hafnað kaupum Haga á Lyfju.
Samkeppniseftirlitið hefur hafnað kaupum Haga á Lyfju. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samruni Haga og Lyfju hefði skapað alvarleg samkeppnisleg vandamál og hindrað virka samkeppni. Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins en í gær var greint frá því að eftirlitið hafi hafnað kaupum Haga á Lyfju sem samið var um í nóvember á síðasta ári.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins byggir á fjórum meginatriðum. Í fyrsta lagi því að samruninn hefði haft í för með sér að til yrði mjög öflugt fyrirtæki með mjög sterka stöðu á þeim mörkuðum þar sem bæði fyrirtækin starfa, þ.e. í smásölu á hreinlætis- og snyrtivörum og á heildarmarkaði fyrir vítamín, bætiefni og steinefni, heildarmarkaði fyrir lífrænar mat- og drykkjarvörur og heildarmarkaði fyrir mat- og drykkjarvörur í flokki heilsuvara.

Þá er það mat eftirlitsins að samruninn myndi hafa í för með sér mikla samþjöppun og breytingu á uppbyggingu markaða málsins og valda alvarlegri röskun á samkeppni. Þá leiddi rannsókn Samkeppniseftirlitsins í ljós að Hagar og Lyfja eru nánir keppinautar á þeim mörkuðum þar sem bæði fyrirtækin starfa.

Mikilvægur keppinautur myndi hverfa

„Myndi samruninn leiða til umtalsverðrar breytingar á markaðsgerðinni þar sem mikilvægur keppinautur myndi hverfa af umræddum mörkuðum. Í þessu sambandi skiptir máli að þeir keppinautar sem eftir verða, einkum í smásölu á hreinlætis- og snyrtivörum, eru með margfalt minni markaðshlutdeild en hið sameinaða félag. Þá myndi hið sameinaða fyrirtæki hafa umtalsverða samkeppnislega yfirburði umfram aðra keppinauta á viðkomandi mörkuðum, m.a. í ljósi fjárhagslegs og efnahagslegs styrkleika og stærðar- og breiddarhagkvæmni, sem erfitt yrði að keppa við.

Þá eru aðgangshindranir að mörkuðum sem leiða til þess að nýir aðilar ættu enn erfiðara um vik að hasla sér völl á þeim. Er það mat Samkeppniseftirlitsins að kaupendur búi ekki yfir nægum styrk til að vinna gegn samkeppnishamlandi áhrifum samrunans. Í öðru lagi er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Hagar séu enn í markaðsráðandi stöðu á dagvörumarkaði,“ segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruninn muni styrkja þessa stöðu Haga.

Samkeppniseftirlitið bendir á að slík styrking á markaðsráðandi stöðu Haga felist fyrst og fremst í auknum innkaupastyrk hins sameinaða félags, samþættingu verslana, staðsetningu verslana og möguleikum á auknu vöruframboð í verslunum Lyfju. „Er hvert þessara atriða til þess fallið að styrkja stöðu Haga á dagvörumarkaði með beinum eða óbeinum hætti,“ segir í ákvörðuninni

Gæti haft áhrif á aðgengi keppinauta

Þá telur Samkeppniseftirlitið að sökum þeirrar lóðréttu samþættingar sem myndi eiga sér stað í kjölfar samrunans verði öðrum hugsanlegum keppinautum samrunaaðila á smásölustigi gert erfiðara um vik að komast inn á markaði fyrir smásölu heilsuvara. „Þannig myndi sterk staða hins sameinaða fyrirtækis á mörkuðum fyrir innflutning og dreifingu á heilsuvörum að öllum líkindum valda því að keppinautar samrunaaðila á mörkuðum fyrir smásölu á heilsuvörum ættu á hættu að fá ekki aðgengi að tilteknum vörum,“ segir í ákvörðuninni.

Samkeppniseftirlitið telur jafnframt að samruninn myndi hafa í för með sér skaðleg samsteypuáhrif sem leitt gætu til tjóns bæði fyrir keppinauta samrunaaðila á ólíkum mörkuðum málsins og neytendur.

Myndi raska samkeppni með alvarlegum hætti

„Þrátt fyrir að samsteypusamrunar geti haft jákvæð samkeppnisleg áhrif í för með sér hefur Samkeppniseftirlitið leitt að því líkur að samruni þessi gæti þvert á móti haft útilokandi áhrif á núverandi keppinauta,“ segir í ákvörðuninni. 

Þá segir jafnframt að það sé mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn myndi fela í sér umtalsverða röskun á samkeppni í skilningi samkeppnislaga. „Myndi samruninn raska samkeppni með alvarlegum hætti og hindra möguleika núverandi og nýrra keppinauta til að hasla sér þar völl,“ segir í ákvörðuninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK