Herja á staðalímyndir kynjanna í auglýsingum

Þessi auglýsing Protein World vakti mikla reiði árið 2015.
Þessi auglýsing Protein World vakti mikla reiði árið 2015. Skjáskot af Twitter

Auglýsingar sem sýna staðalímyndir kynjanna verða bannaðar í Bretlandi á næsta ári að sögn eftirlitsstofnunarinnar Advertising Standards Authority, eða ASA. Samtökin herja nú á auglýsingar sem sýna staðalímyndir kynjanna, gera grín að þeim sem samræmast ekki stöðluðum kynjahlutverkum eða ýta undir þau. Er það mat ASA að þess háttar auglýsingar feli í sér kostnað fyrir „einstaklinga, efnahaginn og samfélagið“ en nýjar reglur ASA taka gildi á næsta ári.

BBC segir frá.

Að sögn ASA var ákveðið að endurskoða reglur varðandi staðlaðar kynjamyndir eftir viðbrögð almennings við sérstakri auglýsingaherferð frá fyrirtækinu Protein World frá árinu 2015. Í auglýsingunum mátti sjá konu á baðfötum og spurt hvort áhorfandinn sé „tilbúinn í strandarlíkamann“ (e. Are you beach body ready?).

Herferðin vakti mjög neikvæð viðbrögð og var fyrirtækið sagt sýna samfélagslegt ábyrgðarleysi með henni.

ASA hefur síðustu ár bannað auglýsingar sem eru sagðar sýna hlutgervingu, óviðeigandi kyngervingu og fyrir að gefa í skyn að ungar konur vilji vera of grannar.

Stofnunin hefur þó fengið til sín fjölmargar kvartanir vegna auglýsinga sem sýna staðalímyndir kynjanna og sem gera grín að fólki sem fylgir ekki „hefðbundnum hlutverkum“. Er nefnd sem dæmi í frétt BBC auglýsing þurrmjólkurinnar Aptamill þar sem má sjá stelpur fullorðnast og verða ballerínur en stráka verða verkfræðinga. Einnig hefur verið kvartað yfir auglýsingum fataframleiðandans Gap þar sem mátti sjá strák verða fræðimann en stúlku verða félagsveru eða „social butterfly“.

ASA hefur ekki aðhafst vegna þeirra hingað til þar sem þær brutu ekki reglur samtakanna. En nú verður reglunum breytt.

Að mati ASA þurfa nýju reglurnar að vera settar með tilliti til þess hvort staðalímyndir geti „takmarkað hvernig fólk sér sjálft sig og hvernig aðrir sjá það“.

„Túlkanir sem sýna gamaldags og staðlaðar útgáfur af kynjahlutverkum í samfélaginu geta haft neikvæð áhrif á fólk,“ er haft eftir Guy Parker, framkvæmdastjóra ASA í frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK