Ró og næði í torfhúsunum í Einiholti

Sigurður Hafsteinn Sigurðsson.
Sigurður Hafsteinn Sigurðsson. mbl.is/Golli

Á lóðinni Mel í landi Einiholts I í Biskupstungum eru nú risin tíu torfhús en þar verður rekin gistiþjónusta. Bygging húsanna hófst síðasta sumar en ráðgert er að henni ljúki næsta vor og starfsemi hefjist.

Torfhúsin eru tíu talsins og rúma hvert um sig fjóra fullorðna. Hvert hús er um 60 fermetrar að stærð. Að sögn Sigurðar Hafsteins Sigurðssonar framkvæmdastjóra eru húsin vönduð og þjónusta við gesti verður og fyrsta flokks. Verður hún þó með öðru sniði en gestir lúxushótela eiga að venjast.

Íslenski torfbærinn er fyrirmyndin, en tíu hús hafa verið reist.
Íslenski torfbærinn er fyrirmyndin, en tíu hús hafa verið reist. mbl.is/Golli

Erlendir fjárfestar

Að byggingu húsanna stendur fjölskylda Sigurðar auk vinafjölskyldu frá Liechtenstein en eignarhaldið verður sameiginlegt. Foreldrar Sigurðar eru Sigurður Jensson og Sjöfn Sóley Kolbeins hrossaræktendur, en hjónin frá Liecthenstein eru Alexandra Hoop og Erich Hoop fjárfestar. Að sögn Sigurðar eru þau miklir áhugamenn um náttúru- og dýravernd. „Þetta er erlend fjárfesting. Það eru fleiri sem hafa trú á Íslandi en við,“ segir Sigurður en hjónin hafa sterk tengsl við Ísland.

„Þau hafa komið reglulega til Íslands í 20 til 30 ár og elska landið. Hugmyndin var miklu minni í upphafi. Þá vildum við gera lítinn torfbæ fyrir útlendinga til að fá upplifunina. Svo hefur þetta bara stækkað og stækkað,“ segir hann. Með aðstoð veraldarvefjarins hönnuðu fjölskyldurnar húsin í sameiningu og Bent Larsen Fróðason teiknaði.

„Það er svo gott að hafa útlendinga í þessu með sér. Þeir sjá landið allt öðruvísi en við. Þeir gera sér grein fyrir því hvað við eigum.“

Hvert hús er um 60 fermetrar að stærð.
Hvert hús er um 60 fermetrar að stærð. mbl.is/Golli

Fjölmargar náttúruperlur eru í nágrenni Einiholts og má þar helst nefna Geysi og Langjökul.

„Þú getur verið í viku til tíu daga hér og á hverjum einasta degi farið og skoðað nýja náttúruperlu,“ segir Sigurður. Við torfhúsin hefur verið útbúinn reitur þar sem settar hafa verið niður allar helstu trjátegundir í íslenskri flóru til kynningar fyrir gesti. Einnig eru í þróun hugmyndir að því hvernig kynna megi fuglalíf svæðisins.

Gestirnir verða í návígi við hesta en þeir halda til umhverfis húsaþyrpinguna.

Hágæðahráefni í húsunum

Húsin eru byggð, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum, á íslenska torfbænum. Að sögn Sigurðar voru farnar ferðir á Árbæjarsafn til að fanga byggingarstílinn vel. Minnstu smáatriði eru sjáanleg í handverkinu, m.a. má nefna að naglar í ytra byrði hússins eru demantslaga, af gömlu gerðinni. Hleðslumennirnir eru eistneskir og að sögn Sigurðar hafa þeir leyst verk sitt vel af hendi. „Þeir eru fagmenn fram í fingurgóma og vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera,“ segir hann.

Að innan er frágangur einnig vandaður en efnis var leitað um víða veröld að sögn Sigurðar. Þannig er viður á veggjum og í loftum endurnýttur viður frá Austurríki og gólfefni eru frá Spáni. Blöndunartæki á baðherbergjum eru bresk.

Í hverju húsi verður eldhúskrókur með fullbúnu eldhúsi og borðstofuborði. …
Í hverju húsi verður eldhúskrókur með fullbúnu eldhúsi og borðstofuborði. Í setustofu verður sérhannaður leðursófi og borð auk sjónvarps sem fellt verður inn í ramma á vegg. Tvö svefnherbergi með tvíbreiðum rúmum eru í hverju húsi og baðherbergi. mbl.is/Golli

Í hverju húsi verður eldhúskrókur með fullbúnu eldhúsi og borðstofuborði. Í setustofu verður sérhannaður leðursófi og borð auk sjónvarps sem fellt verður inn í ramma á vegg. Tvö svefnherbergi með tvíbreiðum rúmum eru í hverju húsi og baðherbergi. Við húsin er einnig sólpallur og heit laug með rafstýringu fyrir hita. Húsin verða einnig tæknivædd og hugmyndir eru um að hafa spjaldtölvu í hverju húsi með upplýsingaveitu og annarri þjónustu fyrir gesti.

Fram í september verður unnið að frágangi lóða og þökulagningu kringum húsin en í vetur verður unnið inni í húsunum.

„Við viljum hafa umhverfið eins og það er. Við viljum ekki vera að malbika hér eða gera annað slíkt. Við verðum bara með sama torfið og var hér fyrir,“ segir Sigurður.

Við hvert torfhúsanna er heit laug úr stuðlabergi úr Hrepphólum.
Við hvert torfhúsanna er heit laug úr stuðlabergi úr Hrepphólum. mbl.is/Golli

Algjört næði frá umheiminum

Sigurður segir að þótt þjónustan verði fyrsta flokks sé hugsunin að gestirnir verði í algjöru næði og starfsfólkið áreiti þá ekki. Vegi upp að húsaþyrpingunni verður m.a. lokað fyrir umferð með aðgangsstýringu og við laugarnar verða búnir til hólar svo næði sé frá öðrum gestum.

„Hugmyndin hjá okkur er að leyfa fólki að vera í friði í húsunum. Ef fólk vantar þjónustu getur það verið í sambandi við þjónustuhúsið. Við þjónustum gestina þá um hvað sem er,“ segir hann. Sigurður segir að öll þjónusta verði innifalin, hugsunin sé að budduna þurfi aðeins að reiða fram einu sinni meðan á dvöl stendur. Ekki liggur fyrir hve margir starfsmenn munu þjóna gestunum.

Sigurður segir að þótt þjónustan verði fyrsta flokks sé hugsunin …
Sigurður segir að þótt þjónustan verði fyrsta flokks sé hugsunin að gestirnir verði í algjöru næði og starfsfólkið áreiti þá ekki. mbl.is/Golli

Næst Einholtsvegi er í byggingu þjónustuhús sem er um 350 fermetrar að stærð. Hönnun þess er innblásin af þjóðveldisbænum í Þjórsárdal og hefur einnig torfþak og hleðslur en innréttingar verða í stíl við torfhúsin tíu. Þjónustuhúsið er aðeins ætlað gestum í torfhúsunum.

Í þjónustuhúsinu verður framreiddur morgunverður, eldaður í hágæðaeldhúsi, og þar verða einnig móttaka fyrir gesti, bar og setustofa. Matsalinn má að auki nýta undir fundahöld, fyrirlestra og annað þvíumlíkt.

Minnstu smáatriði eru sjáanleg í handverkinu, m.a. má nefna að …
Minnstu smáatriði eru sjáanleg í handverkinu, m.a. má nefna að naglar í ytra byrði hússins eru demantslaga, af gömlu gerðinni. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK