18 herbergja hótel rís á Hellishólum

Víðir Jóhannsson eigandi Hellishóla og sambýliskona hans Joanna Grudzinska ásamt …
Víðir Jóhannsson eigandi Hellishóla og sambýliskona hans Joanna Grudzinska ásamt jarðverktakanum, yfirsmiði og yfirveitingamanni Hellishóla. Aðsend mynd

Í dag var tekin fyrsta skóflustungan að 18 herbergja hóteli við Hellishóla í Fljótshlíð. Víðir Jóhannsson, eigandi Hellishóla segir mikinn uppgang á svæðinu en þar er nú þegar eitt 18 herbergja hótel, 24 sumarhús, 15 herbergja gistiheimili og eitt stærsta tjaldstæði landsins. Alls er gistipláss fyrir 160 manns á Hellishólum en eftir þessa viðbót verða plássin 190.

Samið hefur verið við Múr og Mál ehf. um byggingu á hótelinu.

„Þetta er orðinn rosalega vinsæll staður, bæði hjá erlendum ferðamönnum og íslenskum,“ segir Víðir í samtali við mbl.is en áætluð verklok á nýja hótelinu eru í apríl á næsta ári. Þá stendur einnig til að gera nýtt tjaldstæði á svæðinu en í dag eru yfir 70 föst hjólhýsi á Hellishólum allt árið.

Víðir er með um 20 manns í starfi á Hellishólum en samhliða gistingu er þar 18 holu golfvöllur og Hellishólavatn þar sem hægt er að veiða. Við opnun nýja hótelsins býst hann við að bæta við 3-4 starfsmönnum.

Víðir segir gríðarlegan uppgang í héraðinu og mikið um að vera. „Hér eru útlendingar allt árið og veturinn lofar góðu,“ segir Víðir og bætir við að hann hafi ekki orðið var við miklar afbókanir. „En ég er með mikið af góðum og föstum kúnnum. Við erum bjartsýn á framtíðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK