Viska lýkur 130 milljóna fjármögnun

Starfsmenn Viska Learning en fyrirtækið er með höfuðstöðvar á Túngötu …
Starfsmenn Viska Learning en fyrirtækið er með höfuðstöðvar á Túngötu 6 í miðborg Reykjavíkur. Aðsend mynd

Hugbúnaðar- og þjálfunarfyrirtækið Viska Learning, sem gefur út starfsmannaþjálfunar-hugbúnaðinn Visku, hefur lokið við 130 milljóna króna hlutafjáraukningu. Brunnur vaxtarsjóður leiðir fjárfestinguna, en einnig tekur Investa sprotasjóður þátt í hlutafjáraukningunni. Fjármagnið frá nýju hluthöfunum mun nýtast í áframhaldandi vöruþróun, ásamt markaðssetningu og sölu erlendis.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Viska auðveldar fyrirtækjum að þjálfa starfsfólk. Hugbúnaðurinn kemur upplýsingum til starfsfólks í smáum skömmtum, eins og fólk er vant af samfélagsmiðlum, og nýtir svo gervigreind til að sérsníða þjálfunina að þörfum hvers og eins. Þannig sparar Viska fyrirtækjum bæði tíma og kostnað við þjálfun starfsfólks og gefur nákvæmt yfirlit yfir stöðu þekkingar innan fyrirtækis. Fjöldi fyrirtækja, hér á landi sem og erlendis, hefur þegar tekið Visku í notkun.

Viska Learning var stofnuð í janúar 2017 af þeim Árna Hermanni Reynissyni, Stefaníu Bjarney Ólafsdóttur og Valgerði Halldórsdóttur en þau voru áður lykilstarfsmenn hjá Plain Vanilla, sem gaf út leikinn QuizUp. „Fjármögnunin frá Brunni og Investa gerir okkur kleift að hraða vöruþróun, taka inn fleiri viðskiptavini fyrr og einbeita okkur að áframhaldandi sölu erlendis,“ er haft eftir Valgerði í tilkynningunni. Meðstofnendurnir Árni og Stefanía segja vöru fyrirtækisins vera skrefi framar en sambærilegar vörur. „Viska nýtir líkanagerð til að ýta þekkingu til starfsfólks þegar hennar er þörf, og viðheldur þannig háu þekkingarstigi starfsfólks.”  

Í kjölfar fjármögnunarinnar hefur Sigurður Arnljótsson frá Brunni vaxtarsjóði tekið sæti í stjórn félagsins. „Við erum mjög spennt fyrir samstarfinu við Visku. Það er geysistórt tækifæri núna til að umbylta starfsmannaþjálfun samfara nýrri tækni og gervigreind. Þjónustan sem Viska býður sameinar þetta á nýjan hátt,“ er haft eftir Sigurði. Hjálmar Gíslason sem fer fyrir fjárfestingu Investa segir: „Hópurinn sem stendur að Visku hefur mikla og góða reynslu í hugbúnaðargeiranum og er að vinna með ferska nálgun á spennandi markaði. Við hjá Investa erum mjög spennt fyrir samstarfinu.”

Auk fyrrnefndrar fjármögnunar hefur Viska áður fengið 50 milljón króna styrk frá Tækniþróunarsjóði. Fyrirtækið hefur því alls sótt sér 180 milljónir króna frá stofnun þess í janúar 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK