Fjöldi ferðamanna ofmetinn um 5%

Áfram verður kannað hvort misræmis gæti í talningu á ferðamönnum.
Áfram verður kannað hvort misræmis gæti í talningu á ferðamönnum. Sigurður Bogi Sævarsson

Fjöldi ferðamanna sem fóru frá landinu í júlí var ofmetinn um 5%. Af þeim 272 þúsund farþegum sem taldir voru er metið að 14 þúsund hafi einungis millilent og teljist þar með ekki til ferðamanna.

Þetta eru niðurstöður könnunar á fjölda sjálftengifarþega á Keflavíkurflugvelli, þ.e. þeirra sem einungis millilentu, sem Isavia og Ferðamálastofa létu framkvæma á tímabilinu 24. júlí til 6. ágúst á meðal brottfararfarþega. 

Í tilkynningu Isavia um niðurstöðurnar segir að ákveðið hafi verið að ráðast í framkvæmd könnunarinnar í kjölfar umræðu sem skapaðist fyrr á árinu eftir umfjöllun vefsins túrista.is um áreiðanleika talninga á farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll. 

„Niðurstöður könnunar sýna að 5% brottfararfarþega nota flugvöllinn eingöngu til millilendingar. Að auki voru 6% farþega sem millilentu og nýttu tækifærið til að fara út af flugvellinum og skoða sig um án þess að gista. Þá voru 3% brottfararfarþega erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi til skemmri eða lengri tíma.“

Tekið er fram að tveir síðastnefndu hóparnir hafi ávallt verið taldir með í ferðamannatalningum og megi gera ráð fyrir að vægi þeirra hafi sveiflast eitthvað gegnum árin af ýmsum ástæðum.

„Ef horft er til talna um fjölda ferðamanna sem fóru frá landinu í júlí má samkvæmt þessu gera ráð fyrir að um 14 þúsund farþegar af 272 þúsundum hafi verið sjálftengifarþegar og teljist þar með ekki til ferðamanna.“

Gert er ráð fyrir að gera aðra úrtakskönnun að vetri til svo hægt sé að sjá hvort munur greinist milli árstíða.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK