„Breytir engu um okkar áform“

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs …
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs fyrirtækisins. Skapti Hallgrímsson

„Öllum málatilbúnaði Seðlabankans hefur verið vísað frá. Þess vegna ákváðum við að fara í þetta mál. Við teljum þörf á að varpa ljósi á hvers vegna farið var í þessa húsleit,“ segir Arna McClure, lögfræðingur Samherja.

Hæstiréttur staðfesti á mánudag dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra þar sem kröfu útgerðafyrirtækisins Samherja, um að fá að taka vitnaskýrslu af fyrrverandi starfsmanni Seðlabankans, án þess að mál hafi verið höfðað, var hafnað.

Samherji hyggst höfða mál gegn Seðlabankanum vegna rannsóknar bankans á ætluðum brotum fyrirtækisins gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Samherja hafi ekki tekst að færa viðhlítandi rök fyrir því að skilyrðum sé fullnægt til að beita þeirri undantekningarheimild að yfirheyra starfsmanninn án þess að mál hafi verið höfðað. Samherji var dæmdur til að greiða Seðlabankanum 350 þúsund krónur í kærumálskostnað.

Málin voru felld niður

Forsaga málsins er sú að Seðlabankinn lét gera húsleit á skrifstofum Samherja í mars 2012. Málið var fellt niður þremur og hálfu ári síðar. Bankinn kærði málið tvívegis til sérstaks saksóknara. Í kjölfarið lagði Seðlabankinn sekt á Samherja sem Héraðsdómur Reykjavíkur felldi niður í apríl síðastliðnum. Eftir að málið var niður fellt kærði Seðlabankinn fjóra einstaklinga, þeirra á meðal Þorstein Má Baldvinsson forstjóra.

Arna McClure, lögfræðingur Samherja.
Arna McClure, lögfræðingur Samherja. Ljósmynd af vef Samherja

Samherji telur, að því er fram kemur í dómnum, að starfsmaðurinn, fyrrverandi forstöðumaður rannsókna, hafi komið að upphafsgerðum málsins á sínum tíma, stöðu sinnar vegna. Seðlabankinn mótmælti því að starfsmaðurinn fyrrverandi yrði leiddur fyrir dóm og taldi að vitnaleiðslan væri ekki til þess fallin að varpa ljósi á einhver atvik heldur leita að misfellum án þess að bent hefði verið á nokkuð sem gæfi tilefni til að ætla að þær hefðu verið fyrir hendi.

Segir útreikninga vanta

Í dómi héraðsdóms, sem féll síðasta dag júnímánaðar, segir meðal annars að Samherji hafi þegar fengið þá útreikninga sem málshöfðun bankans á sínum tíma byggðist á. Arna segir í samtali við mbl.is að það sé rangt. Fyrirtækið hafi fengið niðurstöður útreikninganna en ekki útreikninga sem sýna hvernig niðurstaðan var fengin út.

Hún segir að niðurstaða dómsins breyti engu um það markmið fyrirtækisins að ná fram rétti sínum. Það sé formsatriði hvort skýrsla verði tekin af umræddum starfsmanni nú eða á síðari stigum. Næsta skref sé að höfða viðurkenningarmál á skaðabótaskyldu bankans. „Þetta breytir engu um áform okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK