Launahækkanir meiri en í viðskiptalöndum

Laun hjá ríki og sveitarfélögum hækkuðu meira en á almennum …
Laun hjá ríki og sveitarfélögum hækkuðu meira en á almennum markaði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þó dregið hafi úr launahækkunartakti hafa launahækkanir hér á landi verið mun meiri en í þeim löndum sem við eigum í mestum viðskiptum við. Styrking krónunnar hefur enn fremur orðið til þess að samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum hefur rýrnað. 

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans

Þar segir að launavísitalan hafi verið nær óbreytt milli júní og júlí og hafi alls hækkað um 7,2% frá júlí 2016. Hægt hafi nær sífellt á hækkunartaktinum frá aprílmánuði í fyrra, þegar árshækkunin náði hámarki í 13,4%. Vegna lítillar verðbólgu haldi kaupmáttur launa áfram að aukast og hafi verið meiri en nokkru sinni nú í júlí, eða 5,3% meiri en fyrir ári síðan.

Enn fremur segir að íslenska launavísitalan, mæld í evrum, hafi hækkað um 60% frá 2012 til 2016. Á sama tíma hafi laun í helstu viðskiptalöndum okkar hækkað að hámarki um 6-8%, verið nær óbreytt í Svíþjóð og lækkað um rúm 10% í Noregi. Raungengi krónu miðað við laun hafi alls hækkað um 66,5% yfir tímabilið 2012 fram á fyrsta ársfjórðung þessa árs.

„Fyrirtæki sem eru í útflutningi, hvort sem það er útflutningur á vöru eða þjónustu, búa því augljóslega við skerta samkeppnisstöðu og mega vart við miklum launahækkunum á næstu misserum ef samkeppnisstaða þeirra á ekki að versna enn meira.

[...] Eins og oft gerist í viðræðum um kjarasamninga hér á landi virðist ekki horft mikið til samkeppnisstöðu og samanburðar við viðskiptalönd okkar. Kröfur nú byggja mestmegnis á samanburði við aðra hópa og þar hafa ákvarðanir kjararáðs um verulegar launahækkanir til alþingismanna og stjórnenda innan ríkisins ekki gert stöðuna einfaldari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK