Alvotech leitar að nýju hlutafé vegna uppbyggingar

Eiginfjárhlutfall Alvotech var einungis 1% um síðustu áramót en fyrirtækið …
Eiginfjárhlutfall Alvotech var einungis 1% um síðustu áramót en fyrirtækið leitar nú aukins hlutafjár. mbl.is/RAX

Unnið er að því að auka hlutafé Alvotech, sem er fjögurra ára gamalt lyfjafyrirtæki í Vatnsmýri undir stjórn Róberts Wessman. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var einungis 1% við árslok 2016. Það skuldaði 110 milljónir dollara um áramótin eða um 12 milljarða króna. Leitað er til núverandi hluthafa sem og nýrra. Frá stofnun hafa hluthafar lagt félaginu til 165 milljónir dollara eða um 17 milljarða króna.

Alvotech, sem er systurfyrirtæki Alvogen, sérhæfir sig í þróun og síðar framleiðslu á líftæknilyfjum þegar þau renna af einkaleyfi. Í dag eru sjö lyf í þróun hjá félaginu. Nýtt hátæknisetur var opnað í júní 2016 þar sem starfa um 220 vísindamenn hjá systurfyrirtækjunum Alvogen og Alvotech.

Gæti orðið meiri hlutafjáraukning

Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri hjá Alvotech, segir í samtali við Morgunblaðið, að leitað sé eftir því að styðja við rekstur félagsins næstu árin með auknu hlutafé. Mögulega verði hlutafé jafnframt aukið á árunum 2018-2020. Það þurfi að leggja töluvert af fjármagni í lyfjaþróun. Aðspurður telur hann að fyrstu tekjurnar komi á árunum 2019-2020.

Fram kemur í ársreikningi að stjórn Alvotech telji líklegt að félagið geti aflað nægilegs fjármagns til að mæta þörfum rekstrarársins 2017 og til framtíðar. Rekstrarlíkan Alvotech innihaldi margvísilegar fjármögnunarleiðir m.a. hlutafé, skuldabréfafjármögnun, áfangagreiðslur vegna viðskiptasamstarfssamninga og einnig þóknanir af vörusölu.

Þá kemur fram í ársreikningnum að hlutafé Alvotech hafi verið aukið um sex milljónir dollara eða um 630 milljónir króna í fyrra. Alvotech tapaði 37 milljónum dollara í fyrra eða um 3,8 milljörðum króna. Árið áður nam tapið 41 milljón dollara eða um 4,3 milljörðum króna.

„Umtalsverð fjárfesting hefur verið lögð í þróun lyfja Alvotech eða um 165 milljónir dollara sem hafa komið inn sem hlutafé og í formi hluthafalána,“ segir Halldór. Það er jafnvirði um 17 milljarða króna á núverandi gengi.

Róbert Wessman, stjórnarformaður Alvotech, sagði í opnuviðtali við ViðskiptaMoggann í mars að Alvotech starfaði á nýjum lyfjamarkaði sem vænst væri að 25-faldist að stærð í 25 milljarða dollara á innan við áratug. Hann sagði jafnframt að það væri mun dýrara að þróa hliðstæðuútgáfur af líftæknilyfjum en venjuleg samheitalyf. „Það getur hæglega kostað tólf milljarða króna að þróa eitt slíkt lyf og það tekur um sjö ár. Til samanburðar kostar um það bil 300-500 milljónir króna að þróa hefðbundið samheitalyf vegna þess að tæknin er allt önnur,“ sagði hann.

Missti 230 milljóna dollara samning

Fyrirtækið missti í fyrra samning við Hospira Bahamas Biologics sem hefði tryggt Alvotech meira en 230 milljónir dollara á þremur árum í árangurstengdar greiðslur fyrir réttindi tengdar þremur vörum.

„Samstarfssamningur var gerður við bandaríska lyfjafyrirtækið Hospira um þróun lyfja og aðgengi þeirra að réttindum og markaðsleyfum Alvotech þegar lyfin kæmu á markað,“ segir Halldór. Lyfjafyrirtækið Pfizer keypti Hospira í lok árs 2015. „Við kaup Pfizer á Hospira var ljóst að Pfizer vildi losna undan öllum samstarfssamningum á sviði líftæknilyfja sem Hospira hafði gert, enda hafði Pfizer komið sér vel fyrir á því sviði, “ segir hann.

Uppsagnarsamningurinn var undirritaður í ágúst 2016 og fól hann í sér að Alvotech fengi 25 milljón dollara eingreiðslu. Auk þess hafði Hospira keypt 15% hlut í Alvotech á 45 milljón dollara á árunum 2014 og 2015. Þeim bréfum var skilað til Alvotech. „Samtals hefur Hospira því greitt 70 milljónir dollara og er í dag ekki hluthafi og á engar kröfur eða réttindi sem tengist lyfjum Alvotech í kjölfar samkomulags um að slíta samstarfinu,“ segir Halldór

Búist er við því að skrifað verði undir einn eða fleiri viðskiptasamstarfssamninga við alþjóðleg og eða svæðisbundin lyfjafyrirtæki í ár, að því er fram kemur í fyrrgreindum ársreikningi.

„Fyrsta lyfið sem félagið gerir ráð fyrir að setja á markað sem líftæknilyf er áætlað að seljist á heimsvísu fyrir um 18 milljarða bandaríkjadala á ári, þó svo aðgangur almennings að lyfinu sé núna langtum minni en raunveruleg þörf vegna kostnaðar heilbrigðiskerfa við að niðurgreiða frumlyfið. Það er því eftir miklu að slægjast fyrir Alvotech sem hefur það markmið að auka verulega aðgengi sjúklinga um allan heim á líftæknilyfjum. Þegar hliðstæðulyf líftæknilyfja (biosimilars) koma á markað lækkar lyfjaverð yfirleitt um tugi prósenta frá verði frumlyfja. Í þessu felst gríðarlegur sparnaður fyrir heilbrigðisyfirvöld um allan heim sem gerir það að verkum að fleiri sjúklingar geta notið bestu meðferðar sem í boði er á hverjum tíma,“ segir Halldór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK