Þrír bætast við teymi Gagarín

Ljósmynd/Aðsend

Gagarín hefur ráðið inn teymi til að sinna þróun nýrrar vöru, Map Explorer, en verkefnið hlaut tveggja ára þróunarstyrk frá Tækniþróunarsjóði fyrr á þessu ári. Teymið skipa þeir Haukur Steinn Logason, Eiður Sveinn Gunnarsson og Hermann Ingi Ragnarsson.

Haukur var áður þróunarstjóri og einn stofnenda Radiant Games þar sem hann starfaði frá árinu 2014 fram til þessa árs. Í starfi sínu leiddi Haukur hönnun og smíði á Box Island, leik sem kennir börnum grunngildin í forritun, en hann hefur verið sóttur yfir 500.000 sinnum á heimsvísu. Hann útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavík árið 2014 með BSc-gráðu í tölvunarfræði, en hluti af námi hans fór fram við Fraunhofer Center for Experimental Software Engineering.

Eiður Sveinn útskrifaðist með BSc í tölvunarstærðfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2016 og starfaði við hugbúnaðarþróun hjá sprotafyrirtækjum meðfram námi.

Hermann Ingi lauk BA-gráðu í ensku frá Háskóla Íslands 2011 og BSc-gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017. Í námi sínu lagði Hermann Ingi áherslu á þrívíddarforritun og tölvuleikjagerð.

Map Explorer er nýjasta þróunarverkefni Gagarín, en það felur í sér hönnun á stöðluðum, skalanlegum og gagnvirkum sýningarlausnum sem miðla sögum í tíma og rúmi. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru söfn, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir sem nýta sér gagnvirkar lausnir til miðlunar á upplýsingum og í gagnvirkri frásögn, s.s. í gestamóttökum, í sýningum eða á söfnum. Á meðal sýninga sem Gagarín hefur komið að má nefna Lava Centre á Hvolsvelli, Folgefonna Visitor Centre í Noregi og 50 ára afmælissýningu Landsvirkjunar í Ljósafossstöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK