Vilja greiða minna fyrir Festi

Krónan er í eigu Festar.
Krónan er í eigu Festar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Olíufélagið N1 fer fram á að greiða lægra verð en tæplega 38 milljarða fyrir allt hlutafé Festis, næstastærsta smásölufélags landsins, eins og gert var ráð fyrir í kaupsamkomulagi sem var undirritað í júní. Þar vegur þyngst að afkoma Krónunnar á undanförnum mánuðum hefur verið nokkuð undir áætlunum, samkvæmt heimildum Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins.

Stjórnendur N1 vísa til þess, að sögn þeirra sem þekkja vel til stöðu mála, að í samningunum séu leiðréttingarákvæði sem kveði á um að kaupverðið skuli taka breytingum reynist afkoma félaganna ekki í samræmi við helstu skilmála kaupsamkomulagsins.

Nú sé búist við að hagnaður verslana í rekstri Festis fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) verði í kringum tíu prósentum lægri á yfirstandandi rekstrarári en spár höfðu áður gert ráð fyrir, samkvæmt heimildum.

Þegar tilkynnt var um kaup N1 á öllu hlutafé Festis fyrir um þremur mánuðum kom fram að 37,9 milljarða króna heildarvirði Festis grundvallaðist meðal annars á áætlunum um að afkoma rekstrarfélaganna – Krónunnar, Elko, Nóatúns og Kjarvals – yrði 2.125 milljónir.

Útlit fyrir lakari afkomu er sagt endurspegla sölusamdrátt hjá Krónunni eftir að Costco opnaði heildsöluverslun sína í lok maímánaðar en á móti kemur að rekstur raftækjaverslunarinnar Elko, sem er einnig í eigu Festis, hefur gengið betur en búist var við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK