Ekkert í höfn á Grundartanga eftir árabið

Hvíti ramminn á myndinni sýnir lóðina á Grundartanga þar sem …
Hvíti ramminn á myndinni sýnir lóðina á Grundartanga þar sem til stóð að Silicor Materials reisti sólarkísilverksmiðju.

Þremur og hálfu ári eftir að fyrst var tilkynnt um að banda­ríska iðnfyr­ir­tækið Silicor Mater­ials væri að meta Ísland sem stað fyr­ir upp­bygg­ingu sól­arkís­il­vers á Grund­ar­tanga hefur nú verið fallið frá samningum. Útséð er um að verkefnið gangi upp vegna erfiðleika við fjármögnun. 

Silicor Materials er ekki hætt við áform um uppbyggingu kísilverksmiðju á Grundartanga þrátt fyrir að fyrirtækið hafi fallið frá samningum við Faxaflóahafnir um lóð og hafnaraðstöðu.

Michael Russo, forstjóri fyrirtækisins, segir í samtali við Morgunblaðið að ákveðið hafi verið að hægja á undirbúningnum og fjármögnun verkefnisins hefur verið tekin til endurskoðunar.

„Við þurftum að taka eitt eða tvö skref til baka og endurmeta stöðuna en við höfum fullan hug á að halda verkefninu áfram, því hefur ekki verið hætt,“ segir Russo um fjármögnunina en erfiðara reyndist að fjármagna verkefnið en Silicor Materials taldi í fyrstu. Heildarfjárfesting United Silicor var metin á um 900 milljónir dollara eða 95 milljarða króna og átti að skapa 450 störf.

Russo segir að nauðsynlegt hafi verið að segja upp samningunum við Faxaflóahafnir vegna skilmála í samningunum og það hafi blasað við að fyrirtækið gæti ekki uppfyllt þá lokafresti sem settir voru. Segja megi að þau mál hafi verið sett í biðstöðu ,,en við erum í góðu sambandi við bæði orkufyrirtækin og höfnina og ég veit að Gísli [Gíslason hafnarstjóri] hjá Faxaflóahöfnum er reiðubúinn að tala við okkur þegar við tökum aftur upp þráðinn,“ segir hann.

Russo viðurkennir að erfiðara hafi reynst að fjármagna verkefnið en hann hafi gert sér vonir um en þau mál séu nú komin í annan farveg sem hann geti ekki greint frá í smáatriðum. Spurður hvort hugmyndir séu um byggingu minni verksmiðju útilokar hann það ekki en segir allt eins mögulegt að stefnt verði að sömu afkastagetu og áætlanir hafa gert ráð fyrir en þær hafa miðast við að í verksmiðjunni færi fram hreinsun kísilmálms til framleiðslu á 16- 19.000 tonnum af sólarkísli á ári. ,,Ég get ekki veitt þér nákvæmar upplýsingar um það á þessari stundu en það er vel mögulegt að það verði af sömu stærð,“ segir hann.

Fyrst bárust fregnir af áformum Silicor Mater­ials í febrúar 2014 og var stefnt að því að fram­leiðsla myndi hefjast árið 2016 eða 2017. Fjárfestingin var sögð nema 120 milljörðum íslenskra króna en verksmiðjan átti að skapað allt að fjög­ur hundruð full störf við að framleiða 19 þúsund tonn af sól­arkísli á ári. 

Sumir tóku vel í áformin og var haft eftir Vilhjálmi Birgissyni, formanns Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, að erfitt væri að lýsa því með orðum hversu já­kvæðar frétt­ir af uppbyggingunni væru. „Að fá svona stóra og öfl­uga verk­smiðju, við höf­um beðið eft­ir þessu síðustu ár.“

Silicor Materials staðfesti í júlí 2014 að búið væri að tryggja fjármögnun frá Ari­on­ banka fyr­ir bygg­ingu fyrsta hluta verk­smiðjunn­ar og að Lands­virkj­un og Orka nátt­úr­unn­ar, dótt­ur­fé­lag Orku­veitu Reykja­vík­ur, sæju henni fyr­ir raf­orku.

Höfðu áður brugðist í tvígang

Sama dag var greint frá því að fyr­ir­tækið hef­ði áður fallið frá tveim­ur svipuðum áform­um í Banda­ríkj­un­um þar sem ekki hefði náðst að fjár­magna verk­efnið. Meðal annars hefði misfarist að leggja fram 150 þúsund dala trygg­ingu á vörslu­reikn­ing.

Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, und­ir­ritaði fjár­fest­ing­ar­samn­ing við fyrirtækið um skattahagræði og ívilnanir vegna verkefnisins sem námu 4.640 milljónum íslenskra króna. Ákvörðun ráðherra hlaut blessun Eft­ir­lits­stofn­un EFTA þar sem upbyggingin var talin stuðla að byggðarþróun. 

Þá undirrituðu full­trú­ar Faxa­flóa­hafna og Silicor Mater­ials und­ir­rituðu samn­inga um lóð, lóðarleigu og af­not af höfn vegna uppbyggingarinnar í apríl 2015.

Skúli skarst í leikinn

Skúli Mo­gensen, for­stjóri WOW Air, lét sig málið varða. Hann dró trú­verðug­leika fyr­ir­tæk­is­ins í efa og sagði að verkefnið væri „með verri dílum í Íslandssögunnar.“

„Sag­an end­ur­tek­ur sig nema núna erum við að kasta einni helstu nátt­úruperlu okk­ar, Hval­f­irðinum, fyr­ir borð fyr­ir eitt stykki stóriðju,“ sagði Skúli. 

Lífeyrissjóðir um borð

Fyrirtækið tilkynnti á haustmánuðum 2015 að um fjór­tán millj­arða hluta­fjár­söfn­un væri í höfn. Íslensk­ir líf­eyr­is­sjóðir og fag­fjár­fest­ar skráðu sig fyr­ir sex millj­örðum króna en er­lend­ir hlut­haf­ar rest. 

Í apríl 2016 féllst stjórn Faxaflóahafna á að breyta tímasetningu á gildistöku samninga við Silicor Materials. Gísli Gísla­son hafn­ar­stjóri sagði verk­efnið hafa taf­ist þar sem und­ir­bún­ing­ur og fjár­mögn­un hafi tekið lengri tíma en ætlað var.

Fyrirtækið fékk annan frest rúmu hálfu ári síðar og síðla janúar á þessu ári var því gefinn lokafrestur til september til að standa skil á gjöld­um vegna hafn­ar­samn­ings, lóðal­eigu­samn­ings og lóðagjalda­samn­ings um fyr­ir­hugaða aðstöðu.

„Getur brugðið til beggja vona“

Í sumar tilkynnti Silicor Materials að byggingaráformum yrði seinkað og að vinna við verksmiðjuna kynni að hefjast á síðari huta næsta árs. Aftur var ástæðan sögð vera tafir á fjár­mögn­un ann­ars áfanga verk­efn­is­ins. Þá var ýmsum orðið ljóst að verksmiðjan yrði hugsanlega ekki að veruleika. 

„Ef­laust er þetta þannig að það geti brugðið til beggja vona en ég veit ekki annað en að þeir séu að vinna að áform­um sín­um,“ sagði Skúli Þórðar­son, sveit­ar­stjóri Hval­fjarðarsveit­ar, eftir fréttirnar. 

Michael Rus­so, fram­kvæmda­stjóri Silicor Mater­ials Ice­land, sendi hafn­ar­stjóra Faxa­flóa­hafna til­kynn­ingu í síðasta mánuði þess efnis að samningarnir tækju ekki gildi og var bréfið tekið fyr­ir á stjórn­ar­fundi Faxa­flóa­hafna í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK