Dregur úr veltu í sjávarútvegi

Bátar í Ólafsvík.
Bátar í Ólafsvík. mbl.is/Alfons Finnsson

Velta í virðisaukaskattsskyldri starfsemi jókst um 2,7% á tímabilinu júlí 2016 til júní 2017 miðað við síðustu tólf mánuði þar áður. Velta í byggingarstarfsemi jókst mest, eða um 27%, en velta í sjávarútvegi var 16,5% lægri en tímabilið á undan. 

Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar. Ekki var starfsemi tengd farþegaflutningum og ferðaskrifstofum tekin með í reikninginn þar sem hún var ekki virðisaukaskattsskyld fyrr en í ársbyrjun 2016 og er nauðsynlegt að taka tillit til þess þegar velta frá og með 2016 er borin saman við fyrri ár.

Þar kemur fram að velta hafi aukist í flestum einkennandi greinum ferðaþjónustu, t.d. í flokknum „rekstur gististaða og veitingarekstur“ þar sem aukningin nam 22,0% á tímabilinu júlí 2016 til júní 2017 miðað við síðustu tólf mánuði þar áður. Á sama tíma jókst velta í bílaleigu um 26,7%.

Einnig jókst velta milli ára í „byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, námugreftri og vinnslu jarðefna“ og nam aukningin um 27,0% sé tímabilið júlí 2016 til júní 2017 borið saman við næstu 12 mánuði á undan. Telur Hagstofa líklegt að hluti af þeim vexti geti verið tilkominn vegna vaxtar í einkennandi greinum ferðaþjónustu. 

Ef miðað er við heilt ár og nýjustu tölur, þá var velta í sjávarútvegi 16,5% lægri á tímabilinu júlí 2016 til júní 2017 en síðustu tólf mánuði þar á undan. Á sama tíma lækkaði velta í heildverslun með fisk um 17,2%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK