Eins og Airbnb fyrir skipaflutninga

Kristinn Aspelund og Leifur A. Kristjánsson.
Kristinn Aspelund og Leifur A. Kristjánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sprotafyrirtækið Ankeri Solutions fer vel af stað. Fyrirtækið, sem var stofnað í desember 2016 af tveimur fyrrverandi starfsmönnum Marorku, hlaut á dögunum verðlaun í íslenskri forkeppni Nordic Startups Awards og mun keppa um titilinn „besti nýliðinn“ þegar norrænu sprotaverðlaunin verða veitt í Stokkhólmi í október.

Ankeri setur markið hátt og gætu þær lausnir sem fyrirtækið er að þróa sparað marga milljarða dala í skipaflutningum. „Við erum í raun að búa til markaðstorg til að tengja saman þá sem eiga flutningaskip og þá sem vilja taka slík skip á leigu til að ferja vörur á milli landa. Við búum til hvata sem miða að því að auka hagkvæmni í flutningunum, bæði leigjanda skipsins og umhverfinu til hagsbóta,“ segir Kristinn Aspelund en hann stofnaði Ankeri Solutions með Leifi A. Kristjánssyni.

Getur munað 10-20% í olíunotkun

Eflaust hafa fæstir lesendur reynslu af því að taka flutningaskip á leigu og vita því ekki að yfirleitt borgar leigjandinn fyrir olíuna sem skipið notar þrátt fyrir að eigandi skipsins sjái um rekstur þess á leigutímanum. Kristinn segir þetta fyrirkomulag þýða að eigendur skipanna hafa oftast lítinn hvata til að spara olíu og getur verulegur munur verið á kostnaði leigjandans eftir því hvaða skip er valið, hvernig skipinu er siglt og hvernig um það er hugsað. „Algengt er að olíukostnaðurinn sé svipað hár og það leiguverð sem er borgað fyrir afnot af skipi og áhöfn. Getur síðan verið allt að 10-20% munur á olíunotkun tveggja sambærilegra skipa eftir því hvernig þau eru rekin.“

Um 90% allra vöruflutninga í heiminum eiga sér stað með skipi og eru þá hrávörur meðtaldar. „Olíukostnaðurinn við alla þessa flutninga hefur verið áætlaður 250 milljarðar dala á ári og gæti því sparnaðurinn numið 25-50 milljörðum á heimsvísu ef tekst að stuðla að 10-20% olíusparnaði.“

Kristinn líkir Ankeri við Airbnb fyrir skipaflutninga, þar sem þeir sem reka skip eiga sína „síðu“ þar sem leigjandi getur kynnt sér rekstrarsögu skipsins og þannig gert sér betur grein fyrir því hversu mikill olíukostnaðurinn gæti orðið. Myndu þá þau skip höfða betur til leigjenda sem geta sýnt fram á minni olíunotkun og segir Kristinn að ekki aðeins geti leigjandinn sparað með því stórar fjárhæðir heldur minnkar líka óvissan við heildarkostnaðinn við leiguna á skipinu.

Tekjur Ankeris munu, a.m.k. til að byrja með, fást með því að selja skipaeigendum og leigjendum áskrift að markaðstorginu, auðvelda skipamiðlurum leit að skipum og einfalda gerð samninga.

Stór markaður fyrir vöruna

Svo virðist sem ekkert annað fyrirtæki bjóði upp á sambærilega þjónustu og gæti reynst vera gífurleg eftirspurn eftir markaðstorgi Ankeris. „Í olíuflutningageira er t.d. langstærstur hluti skipanna í eigu sjálfstæðra aðila sem leigja þau út til olíufélaganna. Í gámaflutningum er tæplega helmingur skipa leigður frá þriðja aðila sem hjálpar gámaflutningafyrirtækjunum við að mæta sveiflum í eftirspurn.“

Ankeri Solutions vinnur núna náið með völdum samstarfsaðilum að þróun á frumgerð markaðstorgs sem gæti farið í loftið á næsta ári. Til að vinna að þróuninni fékk Ankeri sprotastyrk frá tækniþróunarsjóði og styrki frá Átaki til atvinnusköpunar. Kristinn segir að til að byrja með muni Ankeri einbeita sér að Norður-Evrópumarkaði en auðvelt eigi að vera að skala þjónustuna upp fyrir flutningaskip um allan heim. „Við teljum að markaðurinn fyrir okkar vörur geti verið mjög stór og tækifæri fyrir hendi sem gæti verið margra milljarða dala virði.“

Ísland ætti að vera hentug miðstöð

Fyrirtæki eins og Ankeri gæti starfað hvar sem er í heiminum og eflaust hefur það hvarflað að Kristni og Leifi að stofna fyrirtækið frekar í t.d. Rotterdam eða Hamborg. Kristinn segir að þrátt fyrir að nándin við viðskiptavinina skipti miklu máli hafi aldrei verið auðveldara að eiga í góðum samskiptum við erlenda viðskiptavini yfir netið eða einfaldlega skjótast með flugvél á fund í útlöndum. Að starfa á Íslandi komi því ekki að sök.

„Ísland varð fyrir valinu því hér er á margan hátt gott að setja sprota á laggirnar og miklu auðveldara en fyrir t.d. 15 árum. Í gegnum þá styrki sem hér standa til boða og með gott aðgengi að íslenska markaðnum – þótt smár sé – er mjög raunhæft að stofna svona fyrirtæki á Íslandi og hafa miðpunktinn í rekstrinum hér. Staðsetning Íslands mitt á milli Vestur- og Austurheims gerir landið líka að tilvöldum stað fyrir alþjóðlegt fyrirtæki í skipaflutningageira.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK